2004-03-23 17:29:33# 130. lþ. 88.10 fundur 482. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[17:29]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Formaður Samf. nefnir það að við eigum ekki að vera sínk í sambandi við samninga við frændur okkar Færeyinga. Þarna birtist góður hugur til góðra granna og ég er mjög ánægð með þau orð hans.

En það voru orð hans um hitastig sjávar sem kveiktu í mér og það er tilefni þess að ég kem hér upp með athugasemd. Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson veit manna best, miðað við hve langt er síðan ég las fyrstu greinar doktors Árnýjar Sveinbjörnsdóttur um breytingar á hafstraumum og hugsanlegar hitastigsbreytingar í sjó, eru að koma fram og nú síðast í nóvember miklar skýrslur á vegum Norðurskautsráðsins og miklar vísbendingar um að mikil hitnun sé fram undan og að ís muni bráðna og lausasnjór hverfa og að það muni verða opinn sjór í kringum norðurskautið.

Á fundi sem ég var á fyrir stuttu var því einmitt velt upp hverjir muni fá yfirráð yfir svæðunum eða halda um stjórn veiða þegar fiskurinn verður kominn norður fyrir þau hefðbundnu veiðisvæði sem við þekkjum til í dag. Og það er sannarlega hagsmunamál bæði fyrir okkur Íslendinga og vini okkar Færeyinga og e.t.v. ástæða til að byrja að huga að þeim málum fyrr en seinna.