2004-03-23 17:48:04# 130. lþ. 88.11 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[17:48]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Í tilefni af þeim umræðum sem hér hafa spunnist milli formanns utanrmn. og hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar vil ég rifja það upp með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að þetta kom til umræðu við fyrri umræðu þegar við ræddum samninginn. Það sem ég vildi helst hressa upp á minni hv. þm. er að það var einmitt við umræður um þann samning en ekki norsk-íslensku síldina sem umræðan spannst milli þingmanna stjórnarandstöðunnar og hæstv. utanrrh. hvort það ætti að gefa eitthvað eftir varðandi norsk-íslensku síldina. Það var í þeirri umræðu sem hæstv. utanrrh. sýndi það sem mér fannst vera ábyrgðarleysi og fólst í því að hann gaf til kynna að til greina kæmi að slaka á gagnvart Norðmönnum með síldina.

Þetta vildi ég að fram kæmi vegna þess að það var svo einboðið af máli hæstv. ráðherra um síldina og líka af þeim orðum sem féllu um loðnuna að hann hafði ekki nokkurn einasta áhuga á að beita þrýstingi gagnvart Norðmönnum með uppsögn samninga. Alveg ljóst var t.d. af þeirri umræðu að honum hefur ekki til hugar komið það sem hv. þm. nefndi fyrr í dag, að herða aðeins skrúfuna á Norðmenn með því að láta samninginn um síldina ganga á enda og hefja síðan veiðar eins og Íslendingar vilja. Þetta var kannski ástæðan fyrir því að málið var ekki með þessum hætti tekið upp á sameiginlegum fundi nefndanna að það lá alveg fyrir skýr vilji hæstv. utanrrh. að hann ætlaði sér, fremur en setja samskipti þjóðanna í uppnám eins og hann sagði, að slaka á. Þess vegna hafði hann engan áhuga á að setja einhvern sérstakan þrýsting á pottinn og hækka hitastigið þannig að gufan léti aðeins hrikta í lokinu.