Uppsögn af hálfu atvinnurekanda

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 18:15:48 (5650)

2004-03-23 18:15:48# 130. lþ. 88.12 fundur 453. mál: #A uppsögn af hálfu atvinnurekenda# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[18:15]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Frú forseti. Það mál sem hér er tekið til umræðu er afskaplega mikilvægt og það er pólitískt. Það er samt svo undarlegt að það lýtur ekki pólitískum lögmálum frekar en önnur þau mál sem fram koma hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni.

Eins og kom fram í máli flm., Bryndísar Hlöðversdóttur, Samf., fer það í þríhliða nefnd félmrn. Í eðli sínu er hún þannig að ef atvinnurekendur leggjast gegn tillögum eða samþykktum Vinnumálastofnunarinnar sem þar eru teknar upp leggjast þær á ís, þær komast ekki áfram, þær eru þarna einhvers staðar en þær eru ekki fullgiltar af ríkisstjórn Íslands.

Þau eru orðin allmörg, árin sem við hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir höfum reynt að þoka áfram tveimur slíkum samþykktum. Hin sem ég ætla að víkja örlítið að á eftir er alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Hún er sama eðlis, að ekki megi segja upp fólki vegna fjölskylduábyrgðar.

Það kemur fram í greinargerð með þessari tillögu að stjórnarskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar geri ekki ráð fyrir því að stjórnvöld leiki hlutlausan aðila í svona þríhliða nefnd, enda þríhliða samstarfið þannig uppbyggt að nauðsynlegt er að hið pólitíska vald taki afstöðu til mála eftir að hafa rætt þau í nefndinni. Sú stefna sem tekin hefur verið í þríhliða nefndinni hefur bitnað á því starfi sem henni er ætlað að sinna og skýrir það þessi fáu mál sem hafa verið tekin fyrir hér eða notið náðar.

Í greinargerð er sagt frá því hversu margar samþykktir hafa verið samþykktar og fullgiltar á Norðurlöndunum en við það er ástæða til að bæta því að þær tillögur sem skipta máli í þessum efnum og hafa ekki verið fullgiltar hafa verið færðar inn í kjarasamninga eða settar í lög. Stundum hefur jafnvel verið búið að því áður af því að þessi samfélög Norðurlandanna hafa verið mjög framsýn og þau eru þjóðfélög þar sem rétti starfsmanns hefur verið lyft fremur en hitt. Við getum ekki einu sinni borið okkur saman varðandi fjölda samþykkta vegna þess að aðferðin er líka önnur. Það hefur verið gengið lengra á ýmsum sviðum.

Tillaga okkar er ekki um stórfelld atriði. Hún er um grundvallaratriði, að skylt sé að rökstyðja uppsögn, að ástæða skuli vera gild, að tiltekið málsmeðferðarkerfi fari í gang og að það sé réttur starfsmanns við uppsögn.

Hv. þm. Atli Gíslason nefndi það að oft færu fram geðþóttauppsagnir. Mér er kunnugt um það, af því að ég þekki slík dæmi, hversu mikill sársauki fylgir því þegar starfsmaður sem trúir því að hann sé virtur á vinnustað sínum og skili góðu starfi er skyndilega kallaður inn og við hann sagt: Þér er sagt upp. Það er, nákvæmlega eins og hér var tilgreint af flm., nóg að segja: Af því bara. Það þarf ekki að tilgreina ástæðu og starfsmaðurinn situr eftir með þá tilfinningu að hafa verið fleygt, að vera gagnslaus, og sárast er að fá ekki skýringar. Endalausar spurningar, af hverju og af hverju, hvað var það sem ég gerði rangt, hvað er að mér? Við þeim fást engin svör. Þess vegna er það brot á grundvallarmannréttindum að svona sé hægt að koma fram við starfsmenn.

Ég ætla síðan að víkja hér örlítið að og segja frá í leiðinni þessari alþjóðasamþykkt um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Hún er mjög hliðstæð þessari tillögu vegna þess að hún er um það að ekki megi segja upp starfsfólki vegna fjölskylduábyrgðar. Það þýðir í raun að tilteknar aðstæður á heimili, hvort heldur er vegna barna, aldraðra eða annarra nákominna sem þarf að sinna og hefur hugsanlega valdið einhverri röskun varðandi starf viðkomandi, megi ekki vera ástæða uppsagnar. Ég byrjaði að hreyfa þeirri tillögu 1994 og gekk jafnvel svo langt, af því að ég hafði tækifæri til þess, að fara með slíka tillögu inn í ríkisstjórn. Þar fékk ég ekki stuðning við að hún yrði lögð fram. Þannig hefur veto-réttur Vinnuveitendasambands og seinna Samtaka atvinnulífsins verið algildur í þessum efnum.

Hins vegar gerðist það, ekki kannski síst vegna þess að þegar þessar tillögur hafa verið sendar til umsagnar hafa þær fengið gífurlega jákvæða umsögn alls staðar þar sem máli skiptir, að þegar loksins var afgreidd opinber fjölskyldustefna á Alþingi var flutt inn í hana að skoða skyldi hvað þyrfti til að koma til að þessi samþykkt yrði fullgilt. Það hefur sennilega verið árið 1996 eða 1997 og síðan hefur ekkert gerst þannig að við hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir munum jafnframt fara fram með fyrirspurn til að reka á eftir því hvað hefur gerst í máli þar sem jafnvel stjórnvöld hafa fallist á að stuðla að því að það komist áfram.

Einnig er full ástæða til að nefna það að EES-samningurinn fyrst og fremst hefur bætt úr þar sem úrbætur hafa orðið í réttindum launafólks hér og undarlegt þegar við berum okkur saman við Norðurlöndin að íslensk stjórnvöld skuli vera svo vanhæf til að stuðla að rétti starfsmanna á vinnumarkaði.

Þá hlýt ég að koma að öðru máli sem lýtur að opinberum starfsmönnum. Í 44. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er ákvæði um að skylt sé að veita starfsmanni áminningu skv. 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum og jafnframt að ef starfsmaður óskar skuli rökstyðja uppsögn skriflega. Nú er verið að áforma að taka áminninguna út og minnka þetta svigrúm starfsmannsins. Nær væri að ríkisstjórnin tæki skref til að auka rétt á almennum vinnumarkaði í stað þess að byrja að rýra rétt opinberra starfsmanna. Það er eins og alltaf sé gripið til þess ráðs að jafna niður á við eða fella út rétt. Núverandi ríkisstjórn er ekki ríkisstjórn sem eykur rétt, hvorki fólks á vinnumarkaði, barnafólks né fjölskyldunnar.

Starfsmannarétturinn sem felst í ILO-samþykkt er framandi fyrir fólk á íslenskum vinnumarkaði. Það er vant miklum öfgum. Hægt er að segja fólki upp án skýringa. Hins vegar eru gerðir rándýrir starfslokasamningar þar sem mönnum þykir það henta.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.