Uppsögn af hálfu atvinnurekanda

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 18:23:55 (5651)

2004-03-23 18:23:55# 130. lþ. 88.12 fundur 453. mál: #A uppsögn af hálfu atvinnurekenda# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[18:23]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur og Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að koma með þetta mál í þingsályktunarformi þar sem því er beint til ríkisstjórnarinnar að samþykkja þessa samþykkt frá Alþjóðavinnumálastofnuninni nr. 158, um uppsögn starfsmanna af hálfu atvinnurekenda. Við væntum þess auðvitað að ríkisstjórnin mælist til þess við þingmenn sína að þeir leggi þessu máli loksins lið. Það er virkilega tími til kominn og ég vonast vissulega til að þessi till. til þál. verði samþykkt á hv. Alþingi.

Ég vil aðeins gera að umræðuefni það mál sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir vék að í upphafi máls síns, um réttarstöðu fólks. Hún vitnaði þar til uppsagnar vélstjóra hjá Skagstrendingi. Ekki er hægt að ráða annað af málinu, og reyndar hafði ég heyrt um það áður, en að krafan sem sett hafi verið fram af hálfu atvinnurekanda hafi verið sú að viðkomandi aðili færði búsetu sína og fjölskyldu sinnar, eiginkonu og barna, á þann stað þar sem hann stundaði atvinnu sína, í þessu tilfelli til Skagastrandar.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég furða mig á því að héraðsdómur skyldi komast að þeirri niðurstöðu og að hún skyldi svo vera staðfest í Hæstarétti. Ástæður sem krefjast þess að menn flytji búferlum vegna atvinnu sinnar tel ég í fyrsta lagi ekki eiga rétt á sér, að ekki sé hægt að knýja menn til þess. Það verða þá a.m.k. að vera einhverjar rekstrarlegar ástæður fyrir því að staðurinn sem atvinnan er stunduð frá sé þannig í sveit settur að nauðsynlegt sé að menn búi þar. Ég tel það ekki eiga við í þessu tilviki. Þarna er um að ræða starf á frystitogara þar sem langdvölum er verið á sjó og ég tel að ekki sé hægt að sýna fram á að viðkomandi starfsmaður þurfi nauðsynlega starfsins vegna að vera búsettur á staðnum, enda hafa ekki verið færð fyrir því nein rök að hann gæti ekki sinnt starfi sínu án þess.

Síðan er annað atriði sem ég vil benda á og víkja að. Starfsmaðurinn býður upp á mjög sjálfsagða, eðlilega og sanngjarna lausn af sinni hálfu á þessu ágreiningsmáli við atvinnurekandann, að flytja búsetu fjölskyldu sinnar --- þó að hann eigi ekki að vera skyldugur til þess --- til staðarins þegar börnin hafi lokið skóla. Ég tel að þessi réttur mannsins eigi stoð í stjórnarskránni, bæði í þeirri grein sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir vitnaði til áðan, jafnræðisreglu 65. gr., og í 76. gr. stjórnarskrárinnar er líka vikið að réttindum barna. Þar segir:

,,Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.``

Þetta er mjög skýrt og afmarkað. Það er sem sagt velferð barnanna sem þarf að líta til þegar upp koma svona mál, t.d. um að flytja búferlum, og að eigi skuli litið til þess að ekki sé hægt að verða við því með neinum sanngjörnum hætti öðruvísi en að börn fái að ljúka skólanum. Ég tel að viðkomandi starfsmaður hafi átt fyllsta rétt til þess að byggja kröfu sína á m.a. þessum ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Þess vegna furða ég mig á því, hæstv. forseti, að við skulum vera hér með í höndunum dóm sem staðfestur er að því leyti að útgerðin hafi haft rétt til þessarar kröfu. Rök mannsins í þessu tilfelli og sáttatilboð hans tók tillit til fjölskyldunnar og til barna hans, varðandi vernd, umönnun og velferð þeirra. Þau eru einnig vernduð í stjórnarskránni. Mér finnst einkennilegt að við skulum á hv. Alþingi ræða mál sem hefur fallið á þann hátt að Hæstiréttur gerði rök héraðsdóms að sínum án þess að líta til þess að viðkomandi einstaklingur hafði boðið fram lausn í málinu sem féll að kröfum útgerðarinnar þó að ég telji að hann hafi ekki verið skyldugur til þess. Að sjálfsögðu lítur hann til fjölskylduhagsmuna sinna og í því tilviki til skólagöngu barna sinna og krefst þess að á móti verði þeim sjónarmiðum hans mætt að hann geti ekki flutt búsetu sína öðruvísi en líta til hagsmuna barna sinna. Til þess tel ég að hann eigi verndaðan rétt í stjórnarskránni. Ég furða mig þess vegna á því að dómurinn skyldi hafa gengið með þeim hætti sem hér er en hann hnykkir í raun á því að það er ekki vonum seinna að sú tillaga sem hér er flutt, um samþykki á 158. samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunar, verði samþykkt hér.

Ég lýsi yfir fyllsta stuðningi við þetta mál og þakka enn á ný þeim þingmönnum sem fluttu það hingað inn. Það er furðulegt hvað við Íslendingar höfum oft verið sein að innleiða réttindi launafólks. Það virðist ævinlega vera nægilegt að atvinnurekendur setji sig upp á móti samþykktum sem eiga að treysta stöðu fólks á vinnumarkaði, þá gengur íslenska ríkið ekki fram fyrir skjöldu, tekur aldrei af skarið með neinni forustu í málunum heldur lætur þau danka árum og áratugum saman.