Uppsögn af hálfu atvinnurekanda

Þriðjudaginn 23. mars 2004, kl. 18:41:36 (5654)

2004-03-23 18:41:36# 130. lþ. 88.12 fundur 453. mál: #A uppsögn af hálfu atvinnurekenda# þál., Flm. BH
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 130. lþ.

[18:41]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Frú forseti. Ég vil í lokin fá að þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur verið mjög málefnaleg og góð og ég þakka líka fyrir þann stuðning sem komið hefur fram í ræðum hv. þingmanna.

Ég tel mjög mikilvægt, og það hefur komið glögglega fram í umræðunum, að hv. þingmenn hér á hinu háa Alþingi taki höndum saman og tryggi íslensku launafólki þau grundvallarmannréttindi sem fólgin eru í þessari tillögu. Mér finnst það a.m.k. og ég trúi því að mjög margir hér geti tekið undir að það er algerlega ólíðandi að atvinnurekandi geti svipt starfsmann vinnu vegna þess eins að starfsmaðurinn vill ekki búa þar sem atvinnurekandinn vill að hann búi. Virðulegi forseti. Það gengur einfaldlega ekki að hafa þetta umhverfi þannig og hv. þm. Helgi Hjörvar vísaði til dæmis sem kom upp í kosningabaráttunni árið 2003, það er ekki lengra síðan, þar sem tilteknir útgerðarforstjórar fóru í þá aðgerð gagnvart starfsmönnum sínum að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir þeirra, nánast með því að hóta þeim því að þeir mundu þurfa að gjalda fyrir með starfi sínu ef þeir styddu tilteknar stjórnmálaskoðanir. Þá er ég vísa til þess að starfsmenn sem mundu hugsanlega styðja einhverjar verulegar breytingar á kvótakerfinu fengu þau skilaboð frá forstjórum sínum.

Virðulegi forseti. Ég tel þetta mjög alvarleg mál sem við erum að ræða. Við þurfum einfaldlega að gera betur, við þurfum að skýra íslenska löggjöf mun betur að þessu leyti, og satt best að segja er ergilegt að þetta skuli vera umræða dagsins og að það skuli vera umdeilanlegt í íslensku samfélagi að starfsmaður eigi rétt á svo lítilfjörlegu réttlæti eins og að fá uppsögn sína rökstudda.

Auðvitað er eðlilegt að atvinnurekandi hafi ákveðið frjálsræði í því, stjórnunarréttur atvinnurekanda er mjög ríkur í íslenskri löggjöf, en hann verður ekki rýrður óeðlilega mikið með þeim breytingum sem felast í þessari tillögu, langt í frá. Það er einungis verið að búa svo um hnútana að gild ástæða þurfi í raun að vísa til hæfni eða hegðunar starfsmanns en hún má líka byggjast á rekstrarlegum ástæðum fyrirtækisins. Atvinnurekandinn hefur eigi að síður ansi mikið svigrúm til að ráða því hverja hann hefur í vinnu. Það er hins vegar þetta óréttlæti sem fólk stendur frammi fyrir þegar það missir atvinnu sínu sem við viljum breyta og leggjum til að verði breytt í þessari tillögu.

Þetta þarf að vera skýrara í íslenskum lögum. Ég spái því að það sé einungis tímaspursmál, frú forseti, hvenær farið verður með mál á borð við það sem hér var nefnt sem dæmi úr íslenskri dómasögu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Ég tek undir það með þeim sem ég vitnaði hér til í fyrri ræðu minni, Einari Páli Tamimi, að sennilega munu réttarbætur í þessa veru koma frá Evrópu að endingu en a.m.k. höfum við tækifæri hér, með því að samþykkja þessa tillögu, til að breyta því sjálf og tryggja íslensku launafólki grundvallarmannréttindi þegar kemur að uppsögn.