Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 15:07:29 (5661)

2004-03-29 15:07:29# 130. lþ. 89.1 fundur 437#B stjórn fiskveiða# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[15:07]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessu atriði undir þessum lið. Þó að ég hafi ekki nægjanlegar upplýsingar um þau einstöku atriði sem hann nefndi í ræðu sinni til að geta gefið honum svar um þau sérstaklega get ég upplýst hann um að þetta mál, út frá þeim grunnforsendum sem fram koma í spurningu hans, er til athugunar í ráðuneytinu, þ.e. hvort rétt sé og þá hvernig eigi að bregðast við þeim aflaheimildaflutningi sem fram hefur farið á þennan hátt.

Að vísu er það langt liðið á þetta þing að ég á ekki von á að hægt verði að koma fram með niðurstöður úr þeirri athugun á því en hugsanlegt er að það verði hægt á næsta þingi á hausti komanda.