Skerðing kolmunnakvóta

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 15:16:26 (5667)

2004-03-29 15:16:26# 130. lþ. 89.1 fundur 438#B skerðing kolmunnakvóta# (óundirbúin fsp.), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég tel hreinlega að við Íslendingar séum að verða af miklum tækifærum, við erum að eyðileggja samningsaðstöðu okkar í málinu með því að setja þennan kvóta og hefta þannig flotann okkar. Við erum líka að eyðileggja möguleika okkar á því að kortleggja útbreiðslu stofnsins. Ég vil benda á það að núna t.d. stendur yfir leiðangur vestur af Írlandi þar sem verið er að mæla stærð kolmunnastofnsins. Í þeim leiðangri taka rannsóknarskip frá Noregi, Hollandi, Írlandi og Rússlandi þátt.

Hvar eru Íslendingar, hvar eru íslensku hafrannsóknaskipin? Af hverju erum við ekki með í þeim leiðangri? Af hverju er ekki sett meiri vinna í að kortleggja göngur og útbreiðslu kolmunnans sérstaklega í íslenskri lögsögu þannig að við getum náð betri samningsaðstöðu? Það er alveg ljóst, herra forseti, að hér er verið að tala um gríðarleg verðmæti, þetta er mjög verðmætur stofn. Afurðaverð er hátt núna bæði á fiskimjöli og lýsi og ég hreinlega skil ekki að við skulum hefta flotann okkar með þessum hætti.