Endurgreiðsla tannlæknakostnaðar

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 15:18:12 (5669)

2004-03-29 15:18:12# 130. lþ. 89.1 fundur 439#B endurgreiðsla tannlæknakostnaðar# (óundirbúin fsp.), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Síðastliðinn laugardag var haldið mjög áhugavert málþing Tannlæknafélags Íslands undir yfirskriftinni ,,Er tannheilsa íslenskra barna í hættu?`` Á því málþingi kom mjög margt áhugavert í ljós og m.a. að mjög sterkar vísbendingar eru um að það sé orðið samband á milli efnahags foreldra og þess að börn þeirra fari til tannlæknis og eins að unglingar 16--18 ára fari ekki til tannlæknis eins og þau þyrftu.

Eitt af því áhugaverðasta sem fram kom á þinginu voru ummæli yfirtannlæknis Tryggingastofnunar ríkisins, Reynis Jónssonar, sem sagði, með leyfi forseta:

,,Gildandi almannatryggingalög heimila að mínu mati ekki að elli- og örorkulífeyrisþegum sé veitt boðleg þjónusta á kostnað sjúkratrygginga. Þó að það þætti t.d. eðlilegt árið 1974 að banna greiðslur sjúkratrygginga fyrir krónur og brýr er það okkur til vansa að þetta ákvæði skuli enn standa óbreytt 30 árum síðar. Þessu þarf að breyta. Næstu skref ættu svo að vera að hækka endurgreiðslualdurinn sem fyrst í 20 ár til samræmis við önnur Norðurlönd. Minn draumur er að verkið verði svo fullkomnað í fyrirsjáanlegri framtíð og munnholinu verði aftur leyft að teljast fullgildur hluti mannslíkamans og njóta sömu réttinda gagnvart sjúkratryggingum og aðrir líkamspartar hafa.``

Því vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh.:

Mun ráðherra beita sér fyrir hækkun endurgreiðslualdurs vegna tannlækninga og bæta þjónustu við elli- og örorkulífeyrisþega á kostnað sjúkratrygginga?