Gjaldtaka af umferðarmannvirkjum

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 15:39:32 (5685)

2004-03-29 15:39:32# 130. lþ. 89.1 fundur 441#B gjaldtaka af umferðarmannvirkjum# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki komið fram í ræðu hv. þm. hver afstaða hans er til að taka upp gjaldtöku af þessu tagi. Það væri mjög fróðlegt að heyra þótt það verði vart við þessa umræðu.

Ég tek undir það með hv. þm. hve mikilvægt er að við mörkum klára stefnu hvað þetta varðar. Það er einmitt það sem unnið er að um þessar mundir eins og fram kom í svari mínu áðan. Þegar nauðsynlegri undirbúningsvinnu er lokið verður að sjálfsögðu hægt að kynna þá vinnu fyrir þinginu. Ég geri ráð fyrir að þá verði hægt að gera grein fyrir málinu gagnvart hv. samgn.

Við þurfum að vanda okkur við þetta verk því að hér er um stórt mál að ræða. Ef við ætlum að taka upp gjaldtöku vegna notkunar á umferðarmannvirkjum verður eitt yfir alla að ganga. Það þarf þess vegna að undirbúa mjög vandlega og að því er unnið.