Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 15:46:52 (5688)

2004-03-29 15:46:52# 130. lþ. 89.3 fundur 479. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál. 11/130, GAK (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[15:46]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Hér er verið að óska eftir staðfestingu Alþingis á samningi um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum sem unnið var eftir á sl. ári. Þessi samningur fól í sér afsal á veiði upp á 7.100 tonn sem eftirgjöf fyrir aðgang að norsku lögsögunni. Sú eftirgjöf stjórnvalda var afleit leið enda ganga nú Norðmenn á lagið með meiri kröfur. Eftirgjöf má ekki endurtaka sig.

Seinagangur stjórnvalda við að leggja mál milliríkjasamninga fyrir Alþingi er ámælisverður og við erum að fjalla um síldveiðisamning þegar óðum styttist í næstu síldarvertíð. Þá síldarvertíð þarf að framkvæma af miklum krafti af okkar hálfu og efla þannig samningsstöðu okkar. Við mótmælum því að samningar berist inn löngu eftir að þeir hafa verið framkvæmdir og greiðum ekki atkvæði.