Hugbúnaðarkerfi ríkisins

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 15:58:05 (5692)

2004-03-29 15:58:05# 130. lþ. 89.94 fundur 436#B hugbúnaðarkerfi ríkisins# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[15:58]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það væri auðvitað athyglisverð nýjung í þingstörfum að vísa utandagskrárumræðu út fyrir þingið. En ég hef verið að velta því fyrir mér, herra forseti, hvað fyrir hv. þingmanni hafi vakað með því að óska eftir utandagskrárumræðu um skriflegt svar sem liggur fyrir í þinginu. Þetta svar sem hefur verið útbýtt, svarar öllum spurningum um þetta mál. Það kemur á daginn að hér hefur verið ráðist í bráðnauðsynlega endurnýjun og endurgerð á fjárhags- og svokölluðum mannauðskerfum íslenska ríkisins þar sem ný kerfi koma í stað úreltra tölvukerfa. Þá má spyrja sig, í fyrsta lagi: Var þörf fyrir slíka breytingu? Svarið er tvímælalaust já. Það varð ekki hjá því komist og þá var farið út í að kaupa staðlað kerfi í stað þess að sérhanna kerfi fyrir ríkið eins og gert var í upphafi, fyrir 20 árum þegar þessi kerfi voru sett á laggirnar.

Í öðru lagi: Hvernig átti þá að gera þetta? Það var gert með útboði. Var eitthvað athugavert við þetta útboð? Nei, það var ekkert athugavert við það. Það var reyndar í fleiri en einu lagi. Það var kerfið sjálft og síðan voru það aðrir þættir sem því tengjast. Tvö stór fyrirtæki unnu þau útboð, hvort fyrirtæki um sig. Aðrir aðilar sem töldu hugsanlega á sér brotið létu reyna á það fyrir dómstólum, eins og eðlilegt getur talist ef menn telja á sér brotið, hvort svo hefði verið. Niðurstaða liggur fyrir í dómsmáli í því efni um að svo hafi ekki verið.

Þá má spyrja sig: Var þetta kannski of dýrt? Það kemur fram í svari mínu hér að kostnaður við þetta er innan þeirra fjárheimilda sem Alþingi hefur veitt. Alþingi hefur veitt í þetta heilmiklum upphæðum, vissulega, en heildarkostnaðurinn er minni en þeim nemur, eins og kemur fram í svarinu.

[16:00]

Hvað er þá að í þessu máli? Átti kannski ekkert að ráðast í það? Er það niðurstaða þingmannsins --- sem væntanlega er álíka sérfróð um þetta og ég sem veit ekkert um tæknilega hlið málsins --- að óþarft hafi verið að fara út í þessa endurnýjun? Væntanlega er niðurstaða þingmannsins að þetta hafi bara allt verið einhver vitleysa sem einhverjir tæknimenn hafi platað fjmrh. til að ráðast í.

Þannig er það ekki. Þessi kerfi sem eru orðin yfir 20 ára gömul, jafnvel 30 ára gömul, voru að hruni komin. Það var ekki um annað að ræða en að gera þetta. Í leiðinni fara fram heilmiklar umbætur. Það er miklu meira inni í þessum kerfum en var í þeim gömlu og það eru margs kyns nýjungar sem hægt er að fara út í með þessum kerfum. Hér er boðið upp á starfsmannakerfi, greiðslukerfi, áætlanakerfi, ferðareikningakerfi, verkbókhald, birgða- og innkaupakerfi, viðveru- og vaktakerfi og margt fleira sem við í þessum sal höfum aldrei heyrt nefnt. Það er vegna þess að verið er að taka í notkun fullkomnasta búnað sem völ er á í þessu efni og það er ekki verið að tjalda til einnar nætur. Þó að þetta séu háar upphæðir verða menn að sætta sig við að það kostar sitt að koma þessu á, innleiðingin, fjárfestingin, stofnkostnaðurinn. Vissulega er alveg hárrétt að þetta eru miklir peningar en Alþingi hefur samþykkt að veita fjármagn í þetta og það mun skila sér í bættum rekstri ríkisins og ríkisstofnana á komandi tíð.

Ég hafna því algjörlega, herra forseti, að ég hafi reitt fram á fyrri stigum þessa máls rangar og villandi upplýsingar til Alþingis vegna þessarar fjárfestingar. Ég tel það algjörlega rangt. Ég vísa líka á bug fullyrðingum þingmannsins um að nú sé mikið klúður í gangi vegna þess að tvö kerfi séu í gangi o.s.frv. Auðvitað tekur sinn tíma að innleiða nýja tækni og nýja þætti í svona starfsemi en það er verið að því núna og það gengur ágætlega. Auðvitað eru samt einhverjir barnasjúkdómar eins og alltaf er þegar svona lagað er á ferðinni.

Ef hv. þm. telur að framkoma mín í þessu máli og sú forusta sem fjmrn. hefur haft varði við lögin um ráðherraábyrgð skora ég á hana að fylgja því bara eftir og láta á það reyna. Ég hef ekkert við það að athuga, herra forseti, að Ríkisendurskoðun skoði þetta mál, ekki nokkurn skapaðan hlut.

Ég tel það hins vegar óþarfa, eins og segir í svari mínu við fyrirspurn þingmannsins, miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja í málinu að vera að óska eftir einhverri sérstakri athugun á þessu. Það er nákvæmlega ekkert við þetta að athuga en ef þingmaðurinn fer fram á það ætla ég ekki að leggjast gegn því, það er bara fínt.