Hugbúnaðarkerfi ríkisins

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 16:03:23 (5693)

2004-03-29 16:03:23# 130. lþ. 89.94 fundur 436#B hugbúnaðarkerfi ríkisins# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[16:03]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ýmislegt í svari hæstv. fjmrh. við spurningu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur vekur athygli og það er eðlilegt að bera það saman við orðalag frá því að við fyrst kynntumst þessu máli. Það var í fjárlagafrv. fyrir árið 2001 og þar segir, með leyfi forseta:

,,Helsta breyting frá fjárlögum þessa árs er sú að gert er ráð fyrir 160 millj. kr. framlagi til kaupa og aðlögunar á nýju bókhalds- og starfsmannakerfi fyrir ráðuneyti og stofnanir ríkisins.``

Skýringuna á þessu orðalagi má finna í svari hæstv. ráðherra en þar segir, með leyfi forseta:

,,Við gerð fjárlaga fyrir árið 2001 var sett fram fjárlagabeiðni sem byggðist á áætlun Fjársýslunnar um kostnað við innleiðingu. Þar sem fjárlög komu fram á undan útboði þótti ekki rétt að upplýsa bjóðendur um hvað ríkið gerði ráð fyrir að kerfið kostaði. Því var ákveðið að setja fram hógværa fjárhæð í fjárlögum.``

Herra forseti. Ég vek sérstaka athygli á orðalaginu ,,hógværa fjárhæð``. Hógværa fjárhæðin var 160 millj. kr. Þegar kom að því að fjalla um fjáraukalög fyrir árið 2001 í fjáraukalagafrv. var hins vegar upplýst að kostnaðurinn hefði verið tæplega 820 millj. kr. Hógværa fjárhæðin hafði þar af leiðandi hækkað um rúmlega 400%. Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. fjmrh. hvort þetta sé venjulegt vinnulag við áætlanagerð hjá fjmrn. Það má nú eitthvað á milli vera þó að ekki skeiki um rúmlega 400% í tölum.

Þar að auki var í tví- eða þrígang í ferlinu áætlað fyrir kostnaði án þess að geta um virðisaukaskatt og verður það líka að teljast afar sérkennilegt.