Hugbúnaðarkerfi ríkisins

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 16:05:43 (5694)

2004-03-29 16:05:43# 130. lþ. 89.94 fundur 436#B hugbúnaðarkerfi ríkisins# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Hæstv. forseti. Þó að sú sem hér talar sé hvorki í fjárln. Alþingis né hafi sérstaka þekkingu á því máli sem hér um ræðir, þ.e. hugbúnaðarkerfum almennt fyrir svo stórt kerfi sem hér um ræðir, verð ég að segja að málflutningur hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er afar sannfærandi varðandi það að Alþingi Íslendinga hafi ekki fengið nægilega haldgóðar upplýsingar í upphafi þessa máls. Hæstv. fjmrh. hefur ekki svarað þeim grundvallarspurningum sem hv. þm. leggur fyrir hann í ræðu sinni í upphafi þessarar umræðu.

Mér þykir skipta verulegu máli að við horfum á það að hér er um prinsippmál að ræða. Við erum að fjalla um það hvort stjórnvöld eigi að sjá fyrir gerðir sínar þegar um stórar fjárfestingar er að ræða eða hvort stjórnvöldum eigi að vera heimilt að auka kostnað við stórar framkvæmdir tólffalt án þess að Alþingi Íslendinga fái um það viðvörun eða sé upplýst um það nema bara í framhjáhlaupi, að því er virðist, meðan málið er afgreitt.

Ég verð að segja eins og er að ef það hefur verið látið í veðri vaka að heildarkostnaðurinn við þessa breytingu hafi átt að vera um 160 millj. í upphafi og við stöndum núna, örfáum árum síðar, frammi fyrir því að hann er 2 milljarðar finnst mér um verulega alvarlegt mál að ræða. Og mér finnst ekki óeðlilegt þó að máli af þessu tagi sé vísað til Ríkisendurskoðunar því að Alþingi Íslendinga hefur þó þá stofnun til að leita til þegar upp koma mál af þessu tagi. Hvorki hæstv. fjmrh. né hæstv. forseti Alþingis eiga að tala af léttúð um það að hv. þingmenn vilji vísa málum hér til Ríkisendurskoðunar til frekari skoðunar.