Hugbúnaðarkerfi ríkisins

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 16:07:53 (5696)

2004-03-29 16:07:53# 130. lþ. 89.94 fundur 436#B hugbúnaðarkerfi ríkisins# (umræður utan dagskrár), HHj
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[16:07]

Helgi Hjörvar:

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir að taka málið hér upp og hæstv. fjmrh. fyrir svörin að svo miklu leyti sem það voru einhver svör. Ég hafði satt að segja hlakkað nokkuð til þeirrar umræðu sem hér færi fram vegna þess að mér hafði þótt forvitnilegt hvernig 160 millj. geta í meðförum ríkisins orðið að 1 milljarði og síðan að öðrum milljarði án þess að nokkur virðist bera ábyrgð á því eða þurfi að svara fyrir það. Mér fannst hæstv. fjmrh. fjalla með nokkuð ómálefnalegum hætti um þann vanda sem hér er. Hann taldi allt vera í besta lagi þó að leitt hafi verið í ljós að þinginu var talin trú um að hér væri um miklu minni kostnað að ræða en raun ber vitni. Auðvitað á það að vera hæstv. fjmrh. áhyggjuefni og okkur í fjárln. ekki síður.

Ég var ekki kjörinn hér á síðasta kjörtímabili þegar þetta mál var til umfjöllunar en mér virðist þó af stuttum störfum í fjárln. að þingið standi því miður allt of oft frammi fyrir orðnum hlut, frammi fyrir því að framkvæmdarvaldið fari fram úr sér og efni til kostnaðar sem verði árviss langt inn í framtíðina án þess að gerð hafi verið grein fyrir því með nægilega glöggum hætti fyrir fram og hægt að fjalla um það á vettvangi Alþingis nægilega skýrt þannig að ákvörðunin sé tekin af fjárveitingavaldinu en sé ekki orðinn hlutur í einhverju nefndarstarfi á vegum framkvæmdarvaldsins. Ég held þess vegna að það sé full ástæða til að Ríkisendurskoðun verði fengin til að fara yfir þetta stóra og vissulega mikilvæga mál sem ég dreg ekki í efa að starfsmenn framkvæmdarvaldsins hafi unnið að af heilindum af sinni hálfu og að útboðið hafi verið vel og réttilega framkvæmt. Ég held samt að það sé engum blöðum um það að fletta að ýmislegt megi læra af því hvernig 160 millj. urðu að tveimur milljörðum og að Ríkisendurskoðun kunni að vera best til þess fallin að kenna okkur eitthvað um hvernig það gerist og hvernig megi varna því að það gerist aftur.