Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 16:17:34 (5700)

2004-03-29 16:17:34# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[16:17]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998.

Frumvarpið felur í sér breytingar á fyrirkomulagi lánveitinga Íbúðalánasjóðs sem munu leiða til einfaldari lánveitinga, lægri vaxtakostnaðar og minni óvissu um verðmyndun fjármögnunarbréfa Íbúðalánasjóðs á markaði.

Markmið frv. er að tryggja landsmönnum hagkvæmari húsnæðislán í gegnum Íbúðalánasjóð með ódýrari fjármögnun á almennum verðbréfamarkaði. Þessu markmiði á að ná með stækkun skuldabréfaflokka og einföldun bréfanna frá því sem nú er. Þá mun Íbúðalánasjóður veita peningalán verði frv. að lögum en afla fjár til þeirra lánveitinga með útgáfu íbúðabréfa á markaði. Endurskipulagning þessi eykur hagkvæmni fjármögnunar, sníður af helstu agnúa sem eru á núverandi skuldabréfaútgáfu og skapar grundvöll fyrir traustri verðmyndun fjármögnunarbréfa á verðbréfamarkaði.

Í frv. er samt á engan hátt hvikað frá markmiðum gildandi laga um að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum, óháð búsetu, og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Hæstv. forseti. Í þeim breytingum sem nú eru fyrirhugaðar er byggt á þeirri grunnhugsun sem var að baki húsbréfakerfinu þrátt fyrir að skipti á húsbréfum verði lögð af. Húsbréfakerfið hefur þjónað okkur vel og var á sínum tíma snjöll lausn á því vandamáli sem hafði skapast á fasteignamarkaði vegna viðvarandi skorts á fjármagni á afar vanþroskuðum fjármálamarkaði þess tíma. Minna má á að húsbréfakerfið var sett á laggirnar fyrir tíma kauphallarviðskipta og frjálsra fjármagnsflutninga milli landa. Síðan þá hafa allar aðstæður á verðbréfamarkaði breyst og verðmyndun verðbréfa með ríkisábyrgð orðið mjög stöðug. Það er ekki síst að þakka húsbréfakerfinu sem gegnt hefur lykilhlutverki í að skapa virkan verðbréfamarkað á Íslandi. Við þessar aðstæður er því eðlilegt að stíga næsta skrefið í þróuninni, byggja á ávinningi húsbréfakerfisins, en eyða því óhagræði sem skipti á húsbréfum og fasteignaveðbréfum valda kaupendum íbúðarhúsnæðis.

Erlendir fjárfestar eru orðnir mikilvægir þátttakendur á íslenskum fjármálamarkaði. Það má ætla að nú sé ekki minna en 15% hús- og húsnæðisbréfa í beinni eða óbeinni eigu þeirra. Innkoma þeirra á íslenskan markað undanfarin missiri hefur leitt til verulegrar lækkunar á ávöxtunarkröfu bréfanna á eftirmarkaði, enda gera þessir aðilar aðrar og lægri kröfur um ávöxtun en innlendir kaupendur skuldabréfa.

Þessi lækkun ávöxtunarkröfu húsbréfa hefur hins vegar ekki skilað sér í lægri vöxtum til þeirra sem kaupa og byggja íbúðarhúsnæði, m.a. vegna núverandi fyrirkomulags húsbréfakerfisins þar sem vextir til lántakenda eru fyrir fram ákveðnir og lægri ávöxtunarkrafa skilar sér því eingöngu til seljenda. Þessu er ætlunin að breyta með frv. og í framtíðinni verða það því fjölskyldurnar í landinu sem munu njóta lægra vaxtastigs vegna aukinnar eftirspurnar eftir fjármögnunarbréfum Íbúðalánasjóðs.

Til að ná þessu markmiði munu íbúðakaupendur fá íbúðalán greidd út í peningum og áhrif affalla við sölu húsbréfa verða þar með úr sögunni. Lánin munu bera vexti í samræmi við ávöxtunarkröfu á markaði hverju sinni og ávinningur af aukinni eftirspurn bréfa Íbúðalánasjóðs á markaði mun því gagnast lántakendum með beinum hætti.

Hæstv. forseti. Það er ljóst að áhugi erlendra fjárfesta á skuldabréfum Íbúðalánasjóðs er mikill en vegna núverandi forms húsbréfanna hafa þeir samt sem áður fjárfest í bréfunum í minna mæli en búast má við. Þar skiptir mestu útdráttarheimild Íbúðalánasjóðs á húsbréfum.

Fjármálaráðherra skipaði árið 2001 nefnd til að gera tillögur um úrbætur á skuldabréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs til að bæta verðmyndun bréfanna og skilaði hún skýrslu í október 2003. Í samræmi við þær tillögur er lagt til í frv. að útdráttarákvæði þau sem nú eru á húsbréfunum verði afnumin og að skuldabréfaskiptafyrirkomulagið sem nú er í húsbréfinu verði lagt niður.

Þess má geta, hæstv. forseti, að í Danmörku hafa nýlega verið boðaðar áþekkar breytingar á danska húsbréfakerfinu sem verið hefur við lýði í 130 ár og var fyrirmynd íslenska húsbréfakerfisins. Ástæða þess er sú að dregið hefur úr samkeppnishæfni bréfanna á evrópskum skuldabréfamarkaði.

Í stað þess að Íbúðalánasjóður afhendi lántakendum markaðsverðbréf í skiptum fyrir fasteignaveðbréf eins og nú tíðkast í húsbréfakerfinu munu íbúðabréf verða boðin út á markaði og lántakendur fá andvirði veðbréfsins greitt út í peningum. Stefnt er að því að íbúðabréf verði gefin út í fáum, stórum flokkum sem verði opnir allan líftímann og því markaðshæfir á alþjóðlegum markaði. Kjör íbúðalána munu ráðast af fjármagnskostnaði Íbúðalánasjóðs í heild, þ.e. annars vegar vaxtakjörum sem ráðast af niðurstöðu útboðs íbúðabréfa og hins vegar fjármagnskostnaði vegna uppgreiðslna fjármögnunarbréfa Íbúðalánasjóðs. Vaxtaákvörðun mun byggja á þessum tveimur þáttum. Að auki kemur álag vegna afskrifta og kostnaðar við fjáröflun sjóðsins með sama hætti og nú er við lánveitingar Íbúðalánasjóðs og sölu hans á húsnæðisbréfum.

Þetta nýja fyrirkomulag gerir ráð fyrir því að vextir af útlánum Íbúðalánasjóðs verði ákvarðaðir eftir hvert útboð og endurspegli því kjör á fjármagnsmarkaði á hverjum tíma. Þessi aðferð felur í sér að lántaki veit þegar lán er tekið hvers má vænta um vaxtakjör út líftíma lánsins.

Þess er vænst að þessar breytingar hafi í för með sér enn lægri ávöxtunarkröfur til bréfa Íbúðalánasjóðs á markaði en nú þegar er raunin. Ef horft er til ávöxtunarkröfu húsnæðisbréfa á fjármálamarkaði að undanförnu má ætla að vextir almennra húsnæðislána Íbúðalánasjóðs hefðu undanfarna mánuði getað verið á bilinu 4,3--4,8% í stað 5,1% ef hið nýja fyrirkomulag hefði verið komið til framkvæmda.

Tillögur frv. miða því að því að skapa forsendur fyrir a.m.k. óbreyttri ávöxtunarkröfu frá því sem nú er og helst umtalsverðri lækkun. Erfitt er hins vegar að fullyrða af nákvæmni um hvert vaxtastig íbúðalána verður þegar þessar breytingar eru um garð gengnar en það er bjargföst trú mín, hæstv. forseti, að þær skapi forsendur fyrir vaxtastigi sem sé áþekkt því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.

Til að flýta fyrir að íbúðabréf verði markaðshæf verður eigendum hús- og húsnæðisbréfa boðið að skipta þeim fyrir íbúðabréf og haldin verða skiptiútboð. Unnið er að útfærslu skiptiútboðs og verður hún kynnt fljótlega. Gert er ráð fyrir því í frv. að það taki gildi 1. júlí 2004 en að útboð á íbúðabréfum hefjist strax í kjölfar þess að frv. verði afgreitt sem lög frá Alþingi.

Hæstv. forseti. Það fyrirkomulag á skuldabréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs sem lagt er til í fyrirliggjandi frv. mun styðja við þá þróun sem verið hefur að undanförnu á fjármagnsmarkaði og leitt hefur til lægri ávöxtunarkröfu húsbréfa. Tilgangur þess er að tryggja að sú þróun skili sér til fjölskyldnanna í landinu í formi lægri vaxta á húsnæðislánum. Einnig er vonast til þess að með breytingunni verði brotin leið fyrir enn frekari lækkun útlánavaxta á íbúðalánum og þá vonandi einnig fyrir almennri lækkun vaxta á íslenskum skuldabréfamarkaði. Ef það tekst er það stór áfangi fyrir heimilin í landinu og raunar atvinnulífið einnig og mun styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á alþjóðavettvangi.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.