Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 16:27:01 (5702)

2004-03-29 16:27:01# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir þann almenna stuðning við málið sem fólst í orðum hans. Hins vegar er í þessu máli ekki verið að fjalla um neina breytingu á hámarkslánunum. Þetta frv. tekur ekki til þess þáttar, heldur er þarna eingöngu verið að fjalla um breytingu á fyrirkomulagi við fjármögnun húsnæðislánanna úr því að byggja á húsbréfakerfi yfir í að fara yfir í þetta íbúðabréfakerfi sem byggir þá á beinum peningalánum. Frv. kemur hins vegar ekki að hámarki lánanna sem nú hefur verið skilgreint sem svo að af notuðu húsnæði er það 9,2 millj. en af nýjum íbúðum er það 9,7 millj. Þetta mál, hæstv. forseti, tekur sem sé ekki til neinna breytinga í þeim efnum.