Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 16:33:05 (5706)

2004-03-29 16:33:05# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[16:33]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir spurningar hennar og þann stuðning við málið sem ég taldi felast í ræðu hennar.

Ég vil svara því skýrt að það er ekkert í þessu máli sem hér er til umfjöllunar sem lýtur að því að gera breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs, alls ekki. Ég vil, með leyfi forseta, vitna til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 23. maí. Þar segir orðrétt:

,,Að haldið verði áfram endurskipulagningu á húsnæðismarkaði í samræmi við markmið um Íbúðalánasjóð. Lánshlutfall almennra íbúðalána verði hækkað á kjörtímabilinu í áföngum í allt að 90% af verðgildi eigna, að ákveðnu hámarki.``

Þarna kemur fram sú stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í stefnuyfirlýsingunni, að við höldum áfram húsnæðislánakerfi okkar innan vébanda Íbúðalánasjóðs. Það mál sem hér er til umfjöllunar gerir alls ekki ráð fyrir neinni breytingu þar á. Þvert á móti er gert ráð fyrir að við viðhöldum í grunninn því kerfi sem við höfum byggt upp með ágætum árangri.