Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:00:08 (5710)

2004-03-29 17:00:08# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir þátttöku hennar í umræðunni.

Í fyrsta lagi tel ég að það hafi komið skýrt fram í máli mínu í upphafi umræðunnar að þessar breytingar eru fyrirhugaðar til hagsbóta fyrir fjölskyldurnar í landinu því að allar líkur eru til þess að þær feli í sér lækkun vaxta.

Hvað varðar hugleiðingar hv. þm. annars vegar um áætlun um 90% lán og hins vegar aðgerðir fyrir leigjendur þá er hvorugt þeirra atriða umfjöllunarefni þessa frv. Hins vegar get ég upplýst það, hæstv. forseti, eins og ég hef reyndar áður gert, að áætlunin um hækkun hámarkslánanna og hækkun lánshlutfallsins er til umsagnar hjá Eftirlitsstofnun EFTA og ég mun gera grein fyrir niðurstöðu hennar um leið og hún liggur fyrir. Sérstök nefnd er að störfum á vegum félmrn. með aðild þeirra sem helst eiga þar að koma að og hún fjallar um stöðu félagslega kerfisins og leiguíbúðanna.

Hv. þm. nefnir til sögunnar dagsetningu í frv. sem er 15. apríl. Hún er ekki heilög. Hins vegar er brýnt að flýta málinu sem kostur er. Gert er ráð fyrir að lög þessi taki gildi 1. júlí nk. og brýnt er að nægur tími gefist til undirbúnings, ekki síst vegna þeirra skuldabréfaskipta sem gert er ráð fyrir að gengið verði til.

Ég hafna því algjörlega, eins og ég hef áður gert, hæstv. forseti, við þessa umræðu, að hér sé einhver undanfari þess að færa húsnæðislánin inn í bankana. Þvert á móti er hér verið að staðfesta það fyrirkomulag húsnæðislána sem gilt hefur í samfélagi okkar. Það er mjög erfitt að færa fyrir því rök að sá sem hér stendur og raunar ríkisstjórnin öll væri að leggja á sig alla þá vinnu og allt það erfiði sem er fólgið í því að senda þá áætlun og fá hana til umsagnar hjá Eftirlitsstofnun EFTA, eins og ég hef áður lýst, ef ætlunin væri sú að færa þetta allt saman inn í bankakerfið.