Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:10:44 (5715)

2004-03-29 17:10:44# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:10]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Ég ítreka bara það sem ég sagði í ræðu minni áðan að það er fullkomlega sársaukalaust af minni hálfu að leggja niður húsbréfakerfið ef ég er sannfærð um að það sé til hagsbóta fyrir fólk, en eins og fram hefur komið í máli mínu er ég ekki fullkomlega sannfærð um það enn þá.

Mér finnst mjög gott að hv. þm. viðurkennir það sem hann hefur nú ekki gert áður, að það eru afföll í þessu kerfi. Þau birtast bara í þeim vaxtamun sem fólk er að greiða allan tímann í stað affallanna sem eru eingreiðsla í byrjun en koma ekki fram allan lánstímann, auk þess sem afföllin skiptust á kaupendur og seljendur í mörgum tilvikum. En í peningalánakerfi munu lántakendur greiða hærri vexti en ella vegna hárrar ávöxtunarkröfu allan tímann þegar og ef vextir verða háir. Með peningalánakerfinu munu hinir hækkuðu vextir hins vegar alfarið lenda á kaupendum þegar þeir koma fram en afföllin ekki skiptast milli kaupenda og seljenda eins og nú er. Það er eitt af því sem hugsanlega gæti verið afturför frá því sem nú er.

Ég þakka lofið sem húsbréfakerfið fær hér frá hv. þm. Hjálmari Árnasyni og reyndar hæstv. ráðherra líka. Það var nú ekki svo létt að koma húsbréfakerfinu á á sínum tíma með allan þingflokk framsóknarmanna á bakinu. Þeir töfðu fyrir því í marga mánuði að húsbréfakerfið kæmist á. Það leiddi til þess að tvö kerfi voru að flækjast saman í einhvern tíma og það leiddi m.a. til affalla. Þeir þurftu þennan tíma til þess að sjá að það var farsæl lending á þeim tíma að ráðast í húsbréfakerfið. En ég held að ég gleymi því aldrei hvað langan tíma tók að sannfæra framsóknarmenn um að hleypa því þó í gegnum þingið og ég held að þeir hafi verið ansi margir sem voru á móti kerfinu eða a.m.k. sátu hjá þó að við værum saman í ríkisstjórn.

Ég er ekki að segja að hið nýja fyrirkomulag sem hér er verið að taka upp geti ekki verið til bóta. En ég vil fá meiri sannfæringu fyrir því en ég hef í dag.