Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:14:46 (5717)

2004-03-29 17:14:46# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., HHj
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:14]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, talsmaður okkar í Samfylkingunni í félmn., hefur nú farið nokkuð yfir þau ýmsu álitaefni sem uppi eru um það frv. sem hér liggur fyrir og mun halda því áfram á eftir af yfirburðaþekkingu sinni og reynslu af málaflokknum. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þm. að tækifæri hafa verið vannýtt til þess að gefa út stóra flokka húsbréfa og kannski hafa ekki náðst fyrir vikið nægilega hagstæð lánskjör í öllum tilfellum. Binda má ákveðnar vonir við að þær fyrirætlanir sem í frv. eru um útgáfu fárra stórra flokka geti leitt til nokkurrar lækkunar vaxta. Yfir það verður einfaldlega að fara vandlega í meðförum félmn.

Ég vil þó spyrja hæstv. félmrh. um nokkur atriði. Kannski er fyrst til að taka það atriði sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur bent á, að sú hætta sé vissulega fyrir hendi þrátt fyrir mjög breytt fjármálaumhverfi frá árinu 1986 að bið geti orðið eftir lánum í þessu kerfi. Nú trúi ég því að hæstv. félmrh. flytji frv. ekki með það að markmiði heldur þvert á móti til þess að bæta og efla þjónustu Íbúðalánasjóðs. Ég velti því þess vegna fyrir mér og vil spyrja hann hvort til álita komi að taka af allan vafa í þessu efni með einföldum ákvæðum í frv. um hámarksbiðtíma notendanna þannig að áfram verði tryggð sú hraða og góða þjónusta sem verið hefur í þessum efnum eftir þetta frv. eins og áður.

Í öðru lagi koma upp í hugann heimildir stjórnar Íbúðalánasjóðs í frv. Þær virðast mér vera bundnar við flokka verðtryggðra lána með föstum vöxtum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að til greina komi að stjórn Íbúðalánasjóðs hafi heimild til víðtækari útgáfu en hér er gert ráð fyrir, þ.e. ef stjórn Íbúðalánasjóðs metur það svo að óverðtryggð lán eigi rétt á sér á markaði, að slíkur flokkur gæti notið góðra vaxtakjara og eftirspurn gæti verið eftir slíkum bréfum hjá íbúðakaupendum, hvort ekki sé eðlilegt að stjórn Íbúðalánasjóðs hafi einfaldlega heimild til þess að bjóða út óverðtryggð lán rétt eins og verðtryggð, þ.e. að það þurfi ekki að vera sérstök lagaleg ákvörðun.

Í þriðja lagi vil ég koma inn á það sem ýmsir hér hafa nefnt og snýr að 90% lánunum. Komið hefur fram hjá hæstv. ráðherra að það mál er til umfjöllunar hjá Eftirlitsstofnun ESA. En ég held að það sé mikilvægt vegna fasteignamarkaðarins og væntinga í samfélaginu að ráðherrann staðfesti að það sé fyrirætlun ríkisstjórnarinnar, að því gefnu að eftirlitsstofnunin fallist á málið, að hér verði í boði á þessu kjörtímabili 90% lán, að hámarki 18 millj. kr., til íbúðakaupa þannig að markaðurinn og þeir sem eru í íbúðakaupahugleiðingum geti gengið út frá því sem vísu að gefi ESA grænt ljós verði þetta þær heimildir sem tiltækar verði íbúðakaupendum í síðasta lagi vorið 2007.

Loks óska ég eftir viðbrögðum ráðherrans við athugasemdum hv. þm. Péturs H. Blöndals um hina miklu áhættu sem ríkissjóður tæki með uppgreiðsluheimildum lántakenda og inni hæstv. ráðherra eftir því hvað hann geri ráð fyrir að vaxtaálag Íbúðalánasjóðs vegna vaxtaáhættunnar, vegna rekstrarkostnaðar, vegna afskrifta, ofan á þá vexti sem Íbúðalánasjóður fær á markaði á hverjum tíma, geti numið miklu, hvort hann eigi von á því að það séu 0,2%, 0,5%, 1%, 2% eða jafnvel þaðan af meira.