Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:19:32 (5718)

2004-03-29 17:19:32# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:19]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir þátttöku hans í umræðunni.

Ég vil byrja á því að segja að ég tel ekki nokkrar líkur til þess að hætta sé á því að við sjáum verða til einhvers konar biðfyrirkomulag eftir fjármagni með þessu nýja kerfi. Við vitum hvers lags framþróun hefur orðið á fjármagnsmarkaði þó ekki væri litið til nema síðustu örfárra ára, hvað þá heldur síðustu tíu ára frá gildistöku EES-samningsins og frjálsra fjármagnsflutninga og alls sem því hefur fylgt. Ég tel því að þarna sé ekki um raunverulega hættu að ræða. Gert er ráð fyrir í frv. að Íbúðalánasjóður bjóði reglulega út þessa lánaflokka þannig að ég tel, hæstv. forseti, að ekki sé hætta á þessari stöðu.

Ekki er gert ráð fyrir í frv. að stjórn Íbúðalánasjóðs hafi víðtækari heimild til vaxtaákvörðunar en svo að þar sé um fasta, verðtryggða vexti að ræða og ég tel raunar mikilvægt að við þessa ákvörðun sé gætt ákveðinnar íhaldssemi og a.m.k. í þessum umgangi og við þessar breytingar verði ekki opnað á slíka heimild.

Ég vil nota tækifærið, hæstv. forseti, til þess að svara hv. þm. alveg skýrt að gert er ráð fyrir því að á þessu kjörtímabili verði Íbúðalánasjóði heimilt að veita allt að 90% lán af verði hóflegs íbúðarhúsnæðis. Hver sú hámarkskrónutala verður nákvæmlega á endanum get ég ekki sagt fyrir um, en ég bíð ekki síður spenntur eftir niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA en hv. þm. og iða satt best að segja í skinninu, hæstv. forseti, að koma með það mál inn í sali Alþingis.

Hvað varðar líklegt vaxtaálag Íbúðalánasjóðs er erfitt fyrir mig að spá um en þess má þó geta að það er nú 0,35%.