Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:22:02 (5719)

2004-03-29 17:22:02# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:22]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Við höfum nú farið í gegnum nokkurn hluta frv. en ég vil aðeins staldra við þau ákvæði sem eru í því varðandi heimildir til gjaldtöku og ýmsar álagsheimildir.

Ég vil fyrst áður en ég fer inn á það velta fyrir mér hvers vegna ekki hafi verið hægt að fara neðar með vextina að því er varðar viðbótarlánin ef útboðin hafa verið svona hagstæð á húsnæðisbréfunum og þarna er um að ræða peningalán. Hvers vegna var ekki hægt að fara neðar með vextina? Hagnaður Íbúðalánasjóðs og hreinar vaxtatekjur eru með ólíkindum háar. Hagnaðurinn á árunum 2002 og 2003 er tæpir 3 milljarðar og hækkaði milli áranna 2002 og 2003 um 32%. Hreinar vaxtatekjur á þessum tveimur árum eru 3,6 milljarðar. Eins og ég skil málið best á að nota hagnað Íbúðalánasjóðs til þess að gera hann betur í stakk búinn til að þjóna landsmönnum sem best við veitingu íbúðalána og halda vöxtum þeirra niðri. Hvers vegna hefur þá ekki, þegar svo mikill hagnaður er á sjóðnum og vaxtatekjurnar svo gífurlegar, þeim fjármunum sem stofnunin hefur yfir að ráða verið beitt til þess að lækka frekar vexti í núverandi kerfi?

Hvað varðar gjaldtökuálagsheimildirnar sem heimilt verður að leggja ofan á þau vaxtakjör sem fást í útboðum er full ástæða til að hafa áhyggjur af hvernig þær verða nýttar. Ég vænti þess að ráðherrann svari því áður en umræðunni um áhættugreininguna sem við vorum að ræða áðan lýkur, hvers vænta megi í því efni.

Í fyrsta lagi taka vaxtakjörin mið af fjármögnunarkostnaði í útboðum sem geta verið breytileg frá einum tíma til annars. Síðan á að leggja á álag til að mæta vanskila- og tapsáhættu og álag til að mæta rekstrarkostnaði. Þetta eru þær heimildir til vaxtaálags sem eru til staðar í dag og vaxtaálagið er 0,35% auk húsbréfavaxtanna 4,75, eða samtals 5,1%. Til viðbótar álagsheimildunum er kallað eftir enn frekari gjaldtöku- og álagsheimildum í frv. auk óskilgreindra þjónustugjalda. Ég sakna þess að hæstv. ráðherra fari ekki nokkuð nánar yfir þetta vegna þess að af því ráðast kjörin sem fólkinu verða boðin.

Í öðru lagi er það nýtt að beðið er um heimild í frv. fyrir álagi vegna fjármagnskostnaðar af uppgreiddum lánum, sem er ný gjaldtökuheimild. Síðan má ákveða að aukaafborganir og uppgreiðsla veðbréfa verði aðeins heimiluð gegn greiðslu þóknunar sem jafni út að hluta eða öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði veðbréfs og markaðskjörum sambærilegs íbúðabréfs, eins og kemur fram í 12. gr. frv., sem er einnig ný gjaldtökuheimild.

Alls staðar er verið að tryggja --- að setja á axlabönd og belti --- og um leið er náttúrlega verið að opna fyrir nýjar álagsheimildir sem munu bitna á lántakendum.

Loks er líka ný gjaldtökuheimild í 4. gr. frv. sem er upptaka þjónustugjalda. Hvað er það, hæstv. forseti? Ég spyr ráðherrann og vísa þar til að bæta á þjónustugjöldum við gjaldtökuheimildir sem ráðherra ákveður með reglugerð. Ástæða er til að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um það nýmæli að taka upp þjónustugjöld og hvort ráðherra telji það standast að hann fái slíka opna heimild með engum takmörkunum á hvernig hann nýtir hana. Ég efast um að það standist að hæstv. ráðherra fái svona opna heimild. Hér er greinilega verið að setja nýja kostnað á íbúðakaupendur með upptöku þjónustugjalda.

Þegar menn tala um að með frv. --- og setja fram þá gulrót --- sé verið að lækka vexti hjá fólki verða menn að horfa á þær nýju heimildir sem verið er að opna á til gjaldtöku og alls konar álög sem enginn mun bera nema auðvitað fólkið sjálft sem tekur lánin. Ég hef áhyggjur af þessu.

Það er líka ástæða til að hafa áhyggjur af því hvaða áhrif sú heimild hefur á vaxtakjör lántakenda að vextir ákvarðist m.a. af fjármagnskostnaði vegna uppgreiddra lána. Auk þeirrar heimildar sem greinilega á að lögfesta ef mikið er um uppgreiðslur, er greiðsla sérstakrar þóknunar sem á að jafna upp muninn á uppgreiðsluverði og markaðskjörum sambærilegra íbúða.

Ég spyr: Hvað getur þetta þýtt fyrir lántakendur? Mér finnst nærri útilokað að ég geti staðið að frv. með því að greiða því atkvæði, sem er með svona opnum heimildum, vegna þess að ég vil vita hvort við erum að fara inn í peningalánakerfi sem þjónar fólkinu betur eða ekki. Ég er bara alls ekki sannfærð um það þegar ég les frv. og greinargerð með því.

Þetta er einn af ókostunum sem fylgja hinu nýja kerfi og menn verða að taka með í reikninginn, og hv. þm. líka þegar þeir meta hvort þeir ætli að styðja frv. eða ekki. Það finnst mér mikilvægt.

Í núverandi húsbréfakerfi geta menn greitt aukaafborganir og greitt upp lán án nokkurs kostnaðar en nú á að taka fyrir þá þjónustu sérstök gjöld, ekki á aðeins að taka tillit til þess í vaxtakjörum heldur á einnig að fá sérstaka heimild til að taka þóknun fyrir það. Það hefur verið mikilvægt í húsbréfakerfinu að heimildir til aukaafborgana og uppgreiðslna hafa verið fyrir hendi, en frá 1999--2003 voru það um 16 milljarðar kr. sem fóru í uppgreiðslur og um 18 milljarðar til viðbótar ef skoðaðar eru uppgreiðslur í byggingarsjóðunum sjálfum, eða samtals frá 1999--2003 um 34 milljarðar kr. Fólk vill kannski ef hagur þess vænkast geta komið með aukaafborganir eða jafnvel greitt upp lán, en það eru alls konar þóknanir og álag sem fólk þarf nú að reiða fram ef það vill fara þá leið að greiða aukaafborgun eða greiða upp lán.

Ég hvet því til þess, hæstv. forseti, að það verði farið vandlega yfir frv. í nefnd og það er skylda okkar þingmanna að skoða nýja kerfið með gagnrýnum augum því að óvissuþættirnir eru ýmsir. Það á ekki að gleypa hráar nýjungar sem spretta upp og ekki gera breytingar á okkar viðkvæmu húsnæðislöggjöf bara breytinganna vegna. Þar er sagan ólygnust og sporin hræða eins og við höfum farið í gegnum.

Ég geri ráð fyrir, hæstv. forseti, að það taki nokkurn tíma að fara yfir málið og kalla eftir ýmsum upplýsingum sem þurfa að liggja fyrir áður en þingið getur afgreitt það. Það mundi greiða fyrir málinu ef hæstv. ráðherra svaraði í þessari umræðu ýmsum spurningum sem vakna þegar við förum yfir frv. eins og hef nefnt hér og er ég ekki síst að tala um þær heimildir sem verið er að auka til að leggja á ýmiss konar álag og þóknunargjöld sem eru auðvitað með þeim hætti að það eru lántakendurnir sjálfir sem greiða þau þegar upp er staðið.

Ég vil loks spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi engar áhyggjur af þeirri hvatningu sem kemur frá bönkunum og hefur verið á undanfarinni einni, tveimur eða þremur vikum, þar sem verið er að hvetja fólk til þess að fresta íbúðakaupum. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi engar áhyggjur af því að þarna geti safnast upp í stíflu sem brestur þegar þetta nýja frv. verður að lögum um mitt árið, 1. júlí, ef um er að ræða að fólk sé mikið að fresta lántökum sínum. Og ég spyr: Eru einhver merki þess hjá Íbúðalánasjóði að svo sé, að það sé eitthvað um það að fólk sé að fresta því að kaupa íbúðir vegna þessarar hvatningar frá bönkunum? Vegna þess að ég ber umhyggju fyrir því, ef frv. verður að lögum, að það verði þá gert með eins farsælum hætti og hægt er og kerfið byrji ekki á því að leiða til einhverra verðhækkana eða að vextir verði með þeim hætti að útilokað verði að lækka þá. Því vil ég spyrja ráðherrann að því og það mun verða lokaspurning mín að sinni hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að þarna myndist stífla með ófyrirséðum afleiðingum þegar nýja kerfið tekur gildi.