Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:34:32 (5721)

2004-03-29 17:34:32# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:34]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi ræða er alveg með ólíkindum. Er hv. þm. virkilega að halda því fram að máttur minn sé svo mikill að orð mín hafi leitt til þess að tveggja til þriggja ára biðröð myndaðist eftir lánum í 86-kerfinu? Er hv. þm. virkilega í alvöru að halda þessu fram? Það var bara kerfið sjálft sem leiddi þetta af sér. Við vöruðum við því, vissulega, hvað mundi gerast en orð okkar eru þó ekki svo máttug að þau leiði til þess að mynda biðraðirnar. Það var bara kerfið sjálft sem ól þær af sér. Það er staðreynd málsins og allir hugsandi menn geta sagt sér það sjálfir en ættu ekki að bera þá firru á borð að einn þingmaður hafi þann mátt að vegna orða hans myndist biðraðir.

Vegna þess sem ég beindi hér til ráðherra, sem varð tilefni þess að hv. þm. viðhafði þessi ósmekklegu orð hérna áðan, vil ég segja að ég hef af því áhyggjur að þetta geti leitt til þess, ef fólk heldur í miklum mæli að sér höndum og kaupir ekki þær íbúðir sem það ella hefði gert, vegna hvatningarinnar frá bönkunum, að stærri hópur fari af stað 1. júlí en ella yrði. Það geta allir sagt sér afleiðingarnar af því ef svo fer. Þá myndast ákveðin stífla, fleiri fara af stað að leita að íbúðum á þeim tíma en kannski markaðurinn ræður við. Það getur leitt til hærra verðs á íbúðum en ella væri. Það er bara lögmál framboðs og eftirspurnar að þegar fleiri fara af stað en framboðið ræður við getur það leitt til bæði verðhækkunar og síðan vaxtahækkunar.

Mér finnst ekkert ólíklegt að hæstv. ráðherra hafi af því dulitlar áhyggjur að það geti skeð ef þetta er í miklum mæli.