Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:58:23 (5731)

2004-03-29 17:58:23# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:58]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi koma að málinu vegna þess að ég tel fulla ástæðu til að þetta verði tekið með í umfjöllunina um þetta málefni. Það er ekki eðlilegt að þeir sem eiga jafnvel verulegt eigið fé í íbúðum sínum og vilja sitja í þeim áfram, en þurfa á fjármögnun að halda, geti ekki fengið slíka fyrirgreiðslu hjá sjóðnum. Mér finnst að það hljóti að vera hægt að setja skýrar og eðlilegar reglur um slíka fjármögnun. Þá er kannski ekki nauðsynlegt að menn fái fjármagn upp í hæstu mögulega fjármögnun eins og hún verður þegar búið er að ákveða hana. Ég held að menn þurfi ekki endilega svo mikið. En það er alveg ljóst að á undanförnum árum hefur töluverður hópur, hann er kannski ekki mjög stór, þurft að búa við það að taka lán sem hafa engan veginn dugað til þess að kaupa íbúðirnar og hefur þurft að bæta við mjög dýrum lánum og velta þeim áfram. Sá hópur væri miklu betur settur með að fá endurfjármögnun á sinni íbúð en að standa í því að selja íbúðina sína og kaupa aðra til að geta endurfjármagnað húsnæði sitt.