Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 18:00:25 (5732)

2004-03-29 18:00:25# 130. lþ. 89.8 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[18:00]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um frv. sem snýr að svokölluðum dagabátum sem veiða í sóknarkerfi og stöðu þeirra mála almennt.

Ljóst er að dagakerfi handfærabátanna er í raun eina sóknarkerfið sem eftir er í núverandi fiskveiðistjórnarútfærslu. Það kerfi getur sýnt okkur þróun fiskigengdar á miðunum við Ísland, það endurspeglar hver fiskigengdin er og hvaða aflabrögð eru á hinum viðkomandi fiskimiðum í kringum landið.

Það er jafnframt sérstakt við sóknardagakerfið að í því kerfi er ekki mér vitanlega neinn hvati til brottkasts. Menn hafa hag af því að koma með allan fisk að landi, það er ekki verið að fiska upp í kvótakíló sem úthlutað hefur verið fyrir fram. Menn sjá sér ekki hag í að velja úr aflanum. Þeim eru ekki sett aflatakmörk varðandi það hvað þeir mega bera að landi. Þeim eru úthlutaðir þessir dagar sem hafa verið 23 lengi vel en stefnir nú í að verði 19. Það er afar sérstakt að þetta kerfi skuli látið þróast með þeim hætti sem orðið hefur á undanförnum árum, kannski ekki síst í ljósi stöðunnar á þessu fiskveiðiári. Það er vægast sagt undarlegt að kerfið skuli látið þróast þannig að dögunum fækki sífellt.

Ég vil leyfa mér að fullyrða, virðulegi forseti, í ræðustól á Alþingi að í raun séu atvinnuréttindi manna brotin og atvinnumöguleikar þeirra þannig leiknir að það stangist á við stjórnarskrá. Í 75. gr. stjórnarskrárinnar segir að á atvinnufrelsi manna megi einungis leggja höft ef það þjóni almannahagsmunum.

Skoðum hvað gerst hefur á þessu fiskveiðiári. Búið er að bæta 30 þús. tonnum við þorskkvótann í hinu almenna aflamarkskerfi, sennilega tvöfalda ýsukvótann á tveimur árum, tvöfalda ufsakvótann á tveimur til þremur árum og eins og ákveðið var á Alþingi í desember að veita sérstaka ívilnun vegna línuveiða ef sett yrði beita á krókana, reyndar handbeitt í landi. Allt hefur þetta orðið til að auka möguleika þeirra sem starfað hafa í aflamarkskerfinu. Þeir hafa fengið auknar veiðiheimildir í þorski, um 30 þús. tonn. Ufsakvótinn hefur verið tvöfaldaður og ýsukvótinn nærri þrefaldaður á fáum árum. Á sama tíma og þeir sem vinna í aflamarkskerfinu hafa fengið fleiri verkefni og meiri atvinnu erum við með sérstakt kerfi, sóknardagakerfi, í gangi sem telur niður atvinnumöguleika manna, þess takmarkaða fjölda sem gerir út handfærabáta eftir sóknardagakerfi.

Ég tel að þetta fari í bága við stjórnarskrána. Það getur ekki verið réttlætanlegt að við höldum áfram að skera niður sóknarmöguleika handfærabátanna á sama tíma og allir aðrir sem starfa í útvegi eru að bæta við sig heimildum, að við tölum nú ekki um stórútgerðina sem hefur verið að fá hvern fiskstofninn á fætur öðrum inn í kvótaúthlutun sína, eins og kolmunnaveiðarnar, sem eru alveg hrein viðbót, norsk-íslensku síldina, sem rætt var um áðan o.s.frv.

Ég sé ekki betur, virðulegi forseti, en að málið horfi þannig við, ef við lítum til þess hvaða réttindi menn telja að stjórnarskráin ætti að veita þeim, en það segir nákvæmlega svo, með leyfi hæstv. forseta, í stjórnarskránni í 75. gr.:

,,Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.``

Ég spyr: Hvernig má það gilda um þessa 322 báta í sóknardagakerfi? Er verið að þjóna almannahagsmunum í landinu með því að skerða atvinnurétt í því kerfi? Eins og menn vita segir í 72. gr. stjórnarskrárinnar:

,,Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.``

Atvinnurétturinn hefur hingað til verið talinn eignarréttur að því leyti að hann verður ekki skertur nema það teljist almannahagsmunir. Þess vegna spyr ég, hæstv. forseti: Hvernig víkur því við að þeir 322 bátar sem gerðir eru út í dagakerfi skuli sæta niðurskurði á atvinnurétti þegar allir aðrir sem stunda fiskveiðar við Ísland fá aukinn atvinnurétt? Heimildir til annarra eru að aukast. Ef menn hafa verið svo ólánsamir að það hafi þurft að skera niður kvóta þeirra, eins og í rækju og hörpuskel, þá hafa menn fengið sérstakar bætur, hæstv. forseti, út á það.

Sóknardagakerfið er áfram skorið niður og í því á áfram að telja niður eins og lögin eru úr garði gerð. Miðað við þá þróun sem hefur orðið í aflamarkskerfinu, að þar hafa verið að aukast heimildir og einkum núna hin síðari ár í botnlægum fiskum eins og ýsu og ufsa, síðast í þorski þegar kosningakvótinn kom, 30 þús. tonnin sem fundust norður á Akureyri á sl. vetri, er ljóst að aðrir fá aukna atvinnumöguleika en ákveðinn hópur manna missir atvinnutækifæri. Það stefnir auðvitað í að þegar dagarnir eru komnir niður í 19, að ég tali ekki um ef þeir halda áfram að telja niður með óbreyttum lögum, muni atvinnuréttindi þessara manna ekki duga þeim til framfærslu. Þar með verður sá hluti útgerðarmanna skorinn niður. Hann mun ekki hafa framfærslu af atvinnu sinni lengur á sama tíma og tekjumöguleikar annarra aukast.

Þetta held ég að fái ekki staðist til langframa. Það var vafalaust hægt að mæla þessu kerfi bót með fækkun sóknardaga á meðan menn skáru endalaust niður kvóta. Eins og menn vita hefur kvótakerfið ekki fært okkur mikla uppbyggingu um fjöldamörg ár þó að nú hafi um skeið árað þannig að ákveðnir fiskstofnar hafa stækkað. Þeir voru reyndar settir inn í kvótakerfið, t.d. ýsan, steinbíturinn og ufsinn á smábátunum þegar engin þörf var á því. Þegar loksins sást fram á að veiðiheimildir bátanna mundu aukast var þar tekið upp kvótakerfi sem engin þörf var á.

Við stöndum frammi fyrir þeim mismun í kerfinu, að atvinna sumra er minnkuð og dregið úr möguleikum þeirra til að framfleyta sér og sínum. Rekstrardæmið endar með því að menn sjá sér ekki fært að stunda slíka útgerð og hvað skeður þá? Jú, þá fara þeir sem mesta hafa veiðireynsluna, eins og ævinlega er þekkt, að biðja um kvóta. Þeir munu hugsa sér að þá sé tími til kominn að reyna að selja sig úr kerfinu með þá reynslu sem menn hafa myndað. Þetta er alþekkt og stjórnvöld hafa iðulega ýtt undir með því að láta það leka út á bak við tjöldin, án þess að á því fáist nokkur staðfesting, að e.t.v. sé möguleiki á að úthluta kvótum upp á 70--80% af veiðireynslunni. Þar með er hengd upp gulrót fyrir þá sem mesta veiðireynslu hafa haft á undanförnum árum. Þeir fara að segja: Ja, miðað við lögin sem keyra okkur niður ár eftir ár er best að við óskum frekar eftir kvóta. Slíkar raddir hafa smátt og smátt farið að heyrast. Ég kalla þetta að svelta menn til hlýðni við ómögulega framtíð.

Framtíðin í kvótakerfinu virðist ekki líkleg til að við getum verið stoltir af því sé litið á alla fleti málsins. Því verður ekki á móti mælt að kvótakerfið færir með sér brottkast. Það er ekki bara hér á landi. Það hefur komið upp í Noregi, í Danmörku og víðar. Á sama tíma erum við með sóknarkerfi í nágrannaríki okkar, Færeyjum. Þeir hafa notast við það kerfi í sjö ár og gengur prýðilega. Það hefur ekki orðið til þess í Færeyjum að gengið hafi á fiskstofnana, þvert á móti. Fiskstofnarnir hafa braggast við Færeyjar, hraðar og betur en hér. Þar hefur verið nokkuð góður og jafn afli á undanförnum árum. Þar er notað sóknarkerfi, eftir að Færeyingar hættu við það sem þeir kölluðu mestu sóun sem nokkurn tíma hefði sést í Færeyjum, þegar Danir settu yfir þá tímabundið kvótakerfi. Þá upphófst það sama og hér á landi, að menn fóru að velja úr aflanum. Við þekkjum þetta enn betur. Hér erum við með leigu á aflaheimildum og varanlega sölu aflaheimilda sem allt ýtir undir að valið sé úr aflanum.

Fyrir ekki svo mörgum árum, hæstv. forseti, voru dagar sóknardagabáta á handfæraveiðum 80. Þeim fækkaði síðan niður í 40 og voru síðan 23 í nokkur ár, eins og ég gat um áður. Því miður eru lögin þannig úr garði gerð að þeir halda áfram að telja niður, dagarnir. Það þýðir að smátt og smátt verða afkomumöguleikar í þessari grein engir.

Hins vegar var gerð ákveðin lagfæring á dagakerfinu sem ég held að hafi orðið til mikilla bóta þegar hin svokallaða tímamæling á veiðunum var tekin upp. Menn gátu þá losnað úr því endalausa stressi að þurfa að stíma til hafnar á tilteknum sólarhring, sem bauð hættunni heim. Útfærslan í dag er einfaldlega sú að tíminn sem menn eru í sjósókn telur. Það breytir ekki öllu hvort menn eru klukkutíma lengur eða skemur á leið úr sjóferð. Ég tel að það hafi aukið öryggið og hafi orðið til mikilla bóta í útfærslunni á kerfinu.

Skoðun okkar, sem flytjum þetta frv. og höfum verið fylgjandi því að viðhalda sóknardagakerfi fyrir handfærabátana, er að lagfæra þurfi þessa stöðu og setja botn í dagana. Við höfum lagt til að botninn í dagakerfinu miðist við 23 daga. Þannig hefur það verið ein tvö eða þrjú fiskveiðiár í röð, að dagarnir voru 23. Við teljum að það sé algjört lágmark til að menn geti rekið þessa útgerð sómasamlega og haft af því lifibrauð.

Við teljum líka óeðlilegt, og það felst í frv., að ef aflabrögð aukast umfram 230 þús. tonn sitji dagakerfið eftir eitt og sér án þess að fá aukningu á afla en allir aðrir haldi áfram að fá aflaaukningu. Þess vegna er lagt til í frv. að þegar heildarafli þorsks á Íslandsmiðum er ákveðinn yfir 230 þús. tonn þá komi viðbótardagur, og þannig koll af kolli fyrir hver 20 þús. tonn sem bætast við. Þannig væri sjálfvirkt inni í sóknardagakerfinu að þegar heildarafli vex á Íslandsmiðum varðandi þorskinn, hann er auðvitað uppistaðan í afla króka- og dagabátanna, þá aukist dagafjöldinn sem þessir bátar megi stunda veiðar. Það mundi gerast á sama hátt og verkefnin aukast hjá flotanum sem vinnur eftir aflamarkskerfinu.

Ég tel mjög mikilvægt, hæstv. forseti, að viðhalda þessu kerfi og hafa þessa sóknarmælingu í gangi þannig að menn sjái í fyrsta lagi hvernig fiskigengd er við landið, hvar hún er við landið og hver aflabrögð eru miðað við sóknareiningu. Sóknarkerfið heimilar mönnum að koma að landi með aflann sem þeir veiða. Það gefur hugmynd um hvað miðin gefa af sér, hver þéttleiki fisks er á miðunum o.s.frv. Auðvitað er þetta allt háð tíðarfari en við megum heldur ekki gleyma því að flotinn, sóknardagabátar og handfærabátar, er mjög færanlegur.

[18:15]

Það fer ekkert á milli mála að Norðvesturkjördæmið hefur notið þessara dagabáta vel á undanförnum árum. Það er einfaldlega vegna þess að miklar handfæraveiðar eru stundaðar á því svæði, frá Breiðafirði, frá Vestfjörðum, frá Ströndum, frá Norðvesturlandi o.s.frv. og allt austur um og í kringum landið. Þannig hefur verið á undanförnum árum að þeir sem gera út í sóknardagakerfinu hafa fært sig til eftir því sem fiskurinn hefur legið við landið og þó bátar séu skráðir allt í kringum land hefur sumarveiðin þar af leiðandi, vor- og sumarveiði handfærabátanna, iðulega fært mikla umsetningu og mikinn afla inn í byggðirnar frá Breiðafirði og norður og austur um að sumartímanum til.

Þetta skiptir geysilega miklu máli fyrir þetta svæði og ekki veitir nú af í Norðvesturkjördæminu og á Mið-Norðurlandi, að viðhalda þar atvinnutækifærum og atvinnumöguleikum. Við horfum jú upp á að mikil umsvif eru á hálendinu á Austurlandi og til stendur að byggja álver á Austurlandi. Þar mun verða mikil uppsveifla sem þegar er farin að hafa veruleg áhrif til atvinnuuppbyggingar og íbúafjölgunar á því svæði, a.m.k. lítur út fyrir það.

En Norðvesturkjördæmið situr talsvert eftir í því tilliti að þar er ekki um nein ný verkefni að ræða sem samsvara neinu í líkingu við það sem er að gerast á Austurlandi. Norðvesturkjördæmið hefur byggt atvinnu sína að miklu leyti á sjósókn og landbúnaði. Þeir atvinnuvegir hafa verið grunnatvinnuvegir kjördæmisins. Ferðamennskan fer vaxandi með batnandi samgöngum og allt gott er um það að segja. En það breytir ekki því að fyrir þetta svæði landsins skiptir ofboðslega miklu máli hvernig sóknardagakerfinu reiðir af vegna þess að þetta færir mikinn afla inn á umrætt svæði og eykur atvinnumöguleika þar mikið.

Því miður hafa stjórnvöld haft horn í síðu þessa kerfis. Ég lít svo á að sjútvrh. hafi frekar lítinn vilja til þess að lagfæra kerfið en hins vegar mikinn vilja til þess að fara inn í kvótasetningu með smábátana og ná því fram eins og menn segja, að færa kerfið allt í einn búning, þ.e. að allir verði kvótasettir. Ég vil líka minna á það, hæstv. forseti, að í skýrslu um byggðaáætlun fyrir Vestfirði, þar sem vitnað er í stefnu ríkisstjórnarinnar um byggðamál, segir, með leyfi forseta:

,,Tekið er undir það sem fram kemur í þingsályktun um byggðamál þar sem fram kemur að brýnt sé fyrir útgerðarfyrirtækin og útgerðarstaðina að stöðugleiki ríki í stjórn fiskveiða ...``

Skyldi þetta ekki eiga alveg jafnt við um sóknarkerfi handfærabátanna og það sem menn eru að vitna til varðandi annað?

Því er alveg ljóst, hæstv. forseti, að þetta skiptir ofboðslega miklu máli í útfærslu og hefur mikil áhrif á það hvernig atvinna skapast við þessar veiðar.

Hinum minni útgerðarstöðum hefur handfærakerfið verið mikil lyftistöng og eflt mjög atvinnutækifæri og möguleika manna við fisköflun og hráefnisöflun og það ber að líta alveg sérstaklega til þess.

Sjósóknin og fiskvinnslan er sá grunnur sem atvinnulífið byggir á, ekki síst á svæðum eins og Vestfjörðum, Norðurlandi og við Breiðafjörð. Þess vegna teljum við flutningsmenn þessa frumvarps nauðsynlegt að taka á þessu kerfi þannig að það verði lagfært. Ég minni á það sem margir þingmenn úr Norðvesturkjördæminu lýstu yfir á fundi vestur á Ísafirði í september, að mig minnir, þar sem var talað um fiskveiðistjórnarmál. Það var 13. september. Þar lýstu margir þingmenn kjördæmisins því yfir að þeir teldu meira en sjálfsagt að setja 23 daga gólf í dagakerfið. Ég treysti því að menn sjái hagsmuni kjördæmis síns í því að festa þetta kerfi í sessi og viðhalda því.