Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 18:20:53 (5733)

2004-03-29 18:20:53# 130. lþ. 89.8 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[18:20]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Það komu fram mjög alvarlegar ásakanir í máli hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar, þ.e. að miklar líkur séu á því að hér sé verið að skerða atvinnuréttindi manna umfram það sem stjórnarskráin leyfir. Mér finnst þetta vera mjög alvarlegar ásakanir. Hér er hugsanlega um stjórnarskrárbrot að ræða. Það er þá ekki í fyrsta skipti sem þau stjórnvöld sem nú ríkja væru að brjóta stjórnarskrána. Allir þekkja viðskipti ríkisstjórnarinnar og öryrkja. Þar sem málið er svo umdeilt væri þá ekki eðlilegt að hæstv. sjútvrh. væri hér til andsvara og reyndi að skýra sjónarmið sín í þessu máli? Hér er verið að skerða atvinnuréttindi manna hringinn í kringum landið. Nú þekkir hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson lítillega til innviða Sjálfstfl. Hefur hann einhverjar skýringar á því hvers vegna menn þora ekki að mæta hér og ræða þetta mál eða hafa þeir einfaldlega engan áhuga á því?

Mér finnst þetta mjög furðulegt. Við erum sí og æ að reyna að ræða við hv. þingmenn Sjálfstfl. um fiskveiðistjórn og fiskveiðar. En þegar þessi mál eru tekin á dagskrá á hinu háa Alþingi lætur enginn sjá sig úr flokki þessum, stærsta flokki landsins. Mér finnst það undarlegt fyrir lýðræðið að menn láti ekki sjá sig hér til að ræða mikilsverð mál því hér er um einn meginatvinnuveg landsins að ræða. Eini þingmaður Framsfl. sem kemur til umræðu og mætir til leiks venjulega þegar verið er að ræða fiskveiðistjórnarmál virðist hafa allt aðrar áherslur en afgangurinn af Framsfl. Mér finnst mjög sérstakt að horfa upp á það á hinu háa Alþingi að þjóðinni sé boðið upp á þetta.