Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 18:52:25 (5742)

2004-03-29 18:52:25# 130. lþ. 89.8 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[18:52]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að möguleikinn til framsalsdaga miðast við nýtingu báts á úthlutuðum sóknardögum á tveimur fiskveiðiárum, annars vegar 1996--1997 og hins vegar 1997--1998. Bátur sem var lítið gerður út á þeim árum hefur t.d. mjög lítinn möguleika á að framselja daga. Það má alveg hugsa sér að endurskoða það. Megintilgangurinn með þessari tillögu var að takmarka möguleikana á framsali þannig að ef menn seldu frá sér fleiri daga en heimilt var er mönnum refsað með því að skerða hluta af þeim dögum sem eftir standa. Þetta hefur áhrif á verðlagningu daganna í þá veru að svona takmarkanir draga úr verðgildinu. Ef við ætlum að rýmka þetta og leyfa frekara framsal, t.d. að fella niður það sem mætti kalla viðurlögin, að ef menn selja frá sér fleiri daga en heimilt er falli niður hluti af þeim dögum sem eftir standa, erum við að liðka fyrir framsalinu.

Það er spurning hvaða áhrif það hefur. Það má velta fyrir sér hvort það leiddi til lægra verðs á dögum eða hvort það leiddi þvert á móti til hærra verðs á dögum. Mér finnst skipta máli hvor niðurstaðan yrði ofan á. Ef það leiddi til þess að verðið á einstökum degi mundi hækka drægi það úr möguleikum manna til að komast inn í kerfið, þ.e. kaupa daga, en ef þetta leiddi til þess að verð daganna lækkaði mundi það vinna með því sjónarmiði sem lá til grundvallar dómi Hæstaréttar.