Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 19:00:48 (5746)

2004-03-29 19:00:48# 130. lþ. 89.8 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[19:00]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef svo lengi verið talsmaður þess að sóknarstýring sé að mörgu leyti skynsamleg leið að ekki þarf að spyrja hvort ég geti tekið undir það að skoða þann möguleika. Það er vissulega vel fyrir hendi að mínu mati. Ég tel að við megum ekki missa það út úr núverandi fiskveiðilöggjöf að stjórna þessum veiðum með sóknarstýringu og tel frekar að menn eigi að styrkja það en veikja og gæta þess að þar sé þó möguleiki á innkomu í kerfið. Auk þess sem ég tek undir almenn sjónarmið um að núverandi sóknardagakerfi skili svo og svo miklum afla á land á þeim stöðum landsins sem helst þurfa á því að halda að þangað berist afli á land. Breytingar í þá veru að þessi floti missi rekstrargrundvöll yrðu því afar slæmar og ekki hægt að standa að því að lögfesta þær.

Ég vil ekki útiloka fyrir fram, og vil gefa hæstv. sjútvrh. svigrúm til þess að vinna það verk sem hann tók að sér fyrir hönd stjórnarliðsins, að freista þess að ná samkomulagi við Landssamband smábátaeigenda um framtíðarskipulag kerfisins, að niðurstaða sem þeir kunna að ná sé ásættanleg að mínu mati. Það væri óskynsamlegt að gera slíkt. Hins vegar er það mitt sjónarmið að eðlilegt sé að gólfið sé 23 dagar og ef ekki kemur nein ásættanleg niðurstaða frá hæstv. ráðherra úr viðræðum um framtíðarskipulag kerfisins tel ég að menn eigi og það sé skynsamlegt að afgreiða frv. frá sjútvn. þannig að við getum freistað þess að ná einhverri niðurstöðu í málið svo allt fari ekki á annan endann vegna stöðugs samdráttar í möguleikum manna til útgerðar á þessu sviði.