Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 19:18:54 (5750)

2004-03-29 19:18:54# 130. lþ. 89.8 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[19:18]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það gæti verið ágætt að rýmka fyrir mönnum í kerfinu þannig að menn gætu stækkað bátana upp í hámarksstærð, sex tonn, og menn hafi þá frjálsar hendur innan þess tímaramma sem þeim er settur að öðru leyti. En það mun óhjákvæmilega leiða til þess að flotinn veiði meira. Ég held að við getum ekki dregið fjöður yfir það. Mitt mat er að það sé ekki raunhæft að ná samstöðu á Alþingi um að setja gólf í dagakerfið verði ekki settar takmarkanir á sóknargetuna. Það er bara mitt mat. Ég tel engar líkur á að menn fái samþykki fyrir hinu, að setja 23 daga gólf og síðan hafi menn opna möguleika á að sækja.

Ég held að möguleikinn á að setja gólf við þessa daga, sem menn eru að sækjast eftir að ná samkomulagi um, felist í því að menn séu tilbúnir að gera samkomulag sem drægi úr sóknar- og veiðimöguleikum flotans. Ég tel að það sé samhengi og vélarafls og veiðigetu. Ef það er rétt þá tel ég rétt að menn noti það til að reyna að ná samkomulagi í málinu. Ég tel einnig að það sé samband á milli þess hversu margar handfærarúllur eru á hverjum bát og möguleika bátsins til að veiða. Ég tel líka rétt að hafa það undir í viðleitninni til að ná samkomulagi um gólf í dagabátana.