Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 19:22:46 (5752)

2004-03-29 19:22:46# 130. lþ. 89.8 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[19:22]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki eins vantrúaður og hv. þm. Jóhann Ársælsson á að þetta frv. nái fram að ganga. Ég tel allar líkur á því. Hvernig stendur á því að ég trúi því? Jú, ég hef þá trú að menn reyni að standa við orð sín. Margir þingmenn úr stjórnarliðinu lofuðu þessu hátíðlega á opnum fundi, m.a. á Ísafirði 13. september sl., þegar Guðrún Pálsdóttir, útgerðarmaður frá Flateyri, spurði hvort þeir styddu málið sem hér er til umræðu. Ég verð að trúa því að mennirnir séu ekki að ljúga að fólkinu á Ísafirði og komi síðan í þennan sal og greiði atkvæði með allt öðrum hætti. Það væri mjög ómerkilegt og ómálefnalegt. Ég ætla ekki þeim þingmönnum, t.d. hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, að gera það. Ég ætla honum að standa við orð sín. Það má minna á að hæstv. samgrh. tók vel í þessar hugmyndir og sama má segja um hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Ég ætla þeim ekki að vera svo ómerkilegir að standa ekki við það sem þeir lofa hátíðlega á fundi.

Ég hef fulla trú á því, sérstaklega í ljósi þess að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur tekið vel í málið og það hefur komið skýrt fram í máli hans að hann muni styðja það, a.m.k. fyrri hlutann. Ég tel því allar líkur á að frv. verði samþykkt.