Fjarskiptalög og misnotkun netmiðla

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 13:32:52 (5754)

2004-03-30 13:32:52# 130. lþ. 90.91 fundur 442#B fjarskiptalög og misnotkun netmiðla# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[13:32]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Á Stöð 2 í gærkvöldi kom fram að lög sem Alþingi samþykkti í fyrra, þ.e. fjarskiptalög, auðveldi barna\-níðingum iðju sína á netinu. Fram kom einnig að þetta væri mat lögreglunnar sem varaði Alþingi við því að samþykkja lögin. Ríkislögreglustjóri lagði til heimild í lögin í því skyni að varðveita gögn um fjarskiptaumferð í allt að sex mánuði sem samgn. tók ekki til greina. Staðan er því sú að ekki er hægt að rannsaka netnotkun með eðlilegum hætti vakni grunur um glæpsamlegt athæfi, eins og t.d. þegar reynt er að lokka börn til fylgilags, en lögreglan óttast að löggjöfin eins og hún er nú sé til þess fallin að hvetja til brotastarfsemi á netinu og draga athygli erlendra brotamanna að Íslandi.

Það vekur vissulega furðu að samgn. hafi ekkert gert með þessar alvarlegu athugasemdir hjá ríkislögreglustjóra, ekki síst þegar hvers konar brotastarfsemi, ekki síst upplýsingar um aðgerðir barnaníðinga á netinu, er orðin óhugnanlega algengur atburður í þjóðfélagi okkar. Ríkislögreglustjóri hefur fengið til rannsóknar flestar tegundir brota á internetinu þar sem niðurstaða hefur oltið á aðgengi að gögnum á netinu. Ríkislögreglustjóri vísar í tilskipun um persónuvernd sem samgn. lagði ekki til að yrði beitt þar sem segir að ríkið geti í þágu þjóðaröryggis, almannaöryggis, til varnar rannsókn og saksókn afbrota tekið upp í lög úrræði til að tryggja varðveislu gagna í takmarkaðan tíma. Ég gerði samgrh. viðvart um þessa umræðu sem hann gat ekki verið viðstaddur, var á förum til útlanda, en ég tel reyndar að málið snúi að Alþingi og það sé raunar skylda samgn. að taka það upp og leggja til nauðsynlegar breytingar sem reisi þær girðingar að lögreglan geti með eðlilegum hætti nálgast gögn á netinu sem nauðsynlegar eru til að hindra eða rannsaka glæpi. Hvet ég til þess að ákvæði sem ríkislögreglustjóri hefur lagt til verði lögfest áður en þingi lýkur.