Fjarskiptalög og misnotkun netmiðla

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 13:42:13 (5759)

2004-03-30 13:42:13# 130. lþ. 90.91 fundur 442#B fjarskiptalög og misnotkun netmiðla# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[13:42]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að taka þetta mál upp undir liðnum störf þingsins og vekja athygli á þeirri frétt sem var í fjölmiðlum í gær. Hér er auðvitað um mjög alvarlegt mál að ræða og því miður fjölgar málum sem tengjast misnotkun á börnum. Menn nota nýjustu tækni til að að nálgast fórnarlömb sín. Okkur á hv. Alþingi ber auðvitað skylda til að bregðast við.

Lögin voru afgreidd fyrir síðustu kosningar, kannski í nokkru hasti, báru e.t.v. keim af því að þetta var kosningaár og menn ákváðu að keyra lögin skart í gegn. Það breytir þó ekki því að menn vilja vel og ég þakka þær undirtektir sem formaður samgn. hafði hér, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, að ætla að taka málið fyrir og gera lagfæringar í þá veru sem nauðsynlegt er til að tryggja megi öryggishagsmuni barna og að lögreglan geti skoðað þær upplýsingar sem fara um netið.