Fjarskiptalög og misnotkun netmiðla

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 13:43:29 (5760)

2004-03-30 13:43:29# 130. lþ. 90.91 fundur 442#B fjarskiptalög og misnotkun netmiðla# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst á því sem komið hefur fram að alvarleg mistök urðu við lagasetningu fyrir þinglok sl. vor. Ég held að hv. samgn. ætti að taka þetta mál upp strax á fimmtudaginn en þá er fastur fundur nefndarinnar og ég gat ekki heyrt betur en að hv. formaður nefndarinnar nefndi það í máli sínu og einnig málshefjandi, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, að við gerðum það. Þar sem ég á nú sæti í samgn. tel ég liggja beint við að við tökum málið upp á fundinum á fimmtudaginn og að nefndin beiti sér fyrir því að leiðrétta þessi mistök sem urðu í fljótaskriftunum í vor. Þá átti ég ekki sæti í nefndinni þannig að ég er ekki alveg viss um hvað átti sér stað en vissulega virðast hafa orðið mistök og ég held að við verðum að leiðrétta þau strax. Þetta getur haft mjög alvarlegar afleiðingar ef það verður ekki gert.