Fjarskiptalög og misnotkun netmiðla

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 13:49:06 (5763)

2004-03-30 13:49:06# 130. lþ. 90.91 fundur 442#B fjarskiptalög og misnotkun netmiðla# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[13:49]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Málið liggur nokkuð ljóst fyrir. Hv. formaður samgn. hefur lýst því yfir að hann hyggist hafa frumkvæði að því að taka málið upp í nefndinni þannig að menn geti farið yfir það aðeins betur og áttað sig á því út á hvað málið gengur. Það er ljóst að þetta er flókið mál og af því tagi sem menn taka mjög alvarlega, það þarf ekkert að ræða það frekar.

Mér finnst hins vegar að í umræðunni hafi þess misskilnings gætt að frv. eða lögin hafi verið keyrð í gegn algjörlega að óathuguðu máli. Það liggur fyrir að löggjöfin var til meðhöndlunar í þinginu alllengi þannig að þingmenn voru ekki að rasa um ráð fram en voru einfaldlega að skoða málin mjög vel. Þetta er flókinn málaflokkur en engin ástæða til að gera því skóna að menn hafi ekki skoðað málið eins vandlega og þeir gátu.

Svo má ekki gleyma því sem hv. formaður nefndarinnar nefndi áðan að menn voru að styðjast við tilskipanir Evrópusambandsins og gengu fram í löggjöfinni í þeirri trú að það væri fyrst og fremst verið að reyna að fullnusta að þessu leyti tilskipanirnar og vinna í samræmi við Evrópuréttinn eins og menn ætla sér að gera.

Að lokum má ekki gleyma því, eins og hv. formaður hefur líka verið að vekja athygli á, að Persónuvernd, sem menn horfa mjög til í málum eins og þessum, gerði ekki athugasemdir. Og eins og fram kom líka í máli hv. þm. var ekki sérstakur ágreiningur um þetta atriði í þinginu, það kemur a.m.k. ekki fram í þeim málskjölum sem maður hefur undir höndum.

Við verðum að horfa til þess að þetta er flókið mál. Mál sem Alþingi ætlaði sér samt sem áður góðan tíma í og það liggur fyrir að hv. formaður nefndarinnar ætlar að kalla saman nefndina og ræða þessi mál þegar tóm gefst til.