Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 14:11:26 (5768)

2004-03-30 14:11:26# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú þykir mér orðinn beygur í gamla harðjaxlinum, skipstjóranum af Vestfjörðum sem taldi nú ekki eftir sér að vaka eina vorvertíð og fiska vel. Nú er á honum hik og hann vill geyma verk til morgundagsins. (GAK: Það eru lög um vinnutíma í þessu landi núorðið. Svona var ekki ... í gamla daga.) Hann vill geyma verk til haustsins og hafa þau sein. Ég ætla ekkert að segja um það. Ég hef sagt að þetta er á valdi þingsins. Ég er að leggja mitt mál fram til umfjöllunar þingsins og treysti því vel.

Ég hygg að þó að löggjöfin hafi í meginatriðum staðið með þessum eða hinum hættinum síðustu ár þá hafi meðferð þeirra mjög verið að breytast í þá veru sem þetta frv. gerir ráð fyrir því að mörg mál hafa farið fyrir dómstóla út af jörðum o.s.frv. og tapast þar og eignarréttur einstaklinganna hefur ekki verið með sama hætti og gerist í þéttbýlinu þannig að þarna hafa verið átök. Auðvitað varðar sveitarstjórnir um búsetuna, umhirðu síns sveitarfélags. Um það er til löggjöf frá þinginu og heimildir þannig að það breytir engu þar. Ég held að við hv. þm. náum samkomulagi um það að menn muni gera sitt besta og sjá svo til.