Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 14:31:45 (5771)

2004-03-30 14:31:45# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[14:31]

Jón Bjarnason (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hæstv. landbrh. um að taka þurfi þessi mál til endurskoðunar og jafnframt, eins og ráðherra hefur ítrekað, að gera þurfi það mjög vandlega. Ég dreg vilja hæstv. ráðherra til þess að gera það alls ekki í efa.

Ég nefndi aðeins þessar áherslur sem ég hefði viljað sjá í ábúðarlögunum. Við fyrstu sýn virðast mér þau snúa meira að jarðareigendunum, eigendaáhyggjur frekar en ábúendaáhyggjur. Ég vildi líka ítreka að þó að sveitarfélögin hafi hingað til haft rétt til þess að grípa inn í ábúð þeirra eru nú að koma önnur sjónarmið inn þar sem sveitarfélög hafa ábyrgð á að meðferð og nýting á viðkomandi landi og auðlindum sé í samræmi við framtíðarhagsmuni og vilja bæði sveitarfélagsins og þjóðarinnar. Það er því alveg rétt, finnst mér, að draga þau sjónarmið miklu sterkar inn.

Ég hefði líka viljað sjá hér í upphafi greinargerðarinnar einhver pólitísk markmið sem menn hefðu sett sér, pólitíska sýn sem menn settu sér fyrir breytingu á ábúðarlögunum, þannig að það velktist ekki fyrir fólki hvort lögin miðuðu að því að gera erfiðara eða betra fyrir ábúendur að búa á þeim. Það er bara vaðið beint í ákveðin tæknileg atriði ábúðarlaganna án þess að í rauninni sé gerð grein fyrir nokkurri stefnu í þeim. Ég hefði viljað sjá skýrari stefnu varðandi ábúð og jarðanot. Að vísu kemur það fram aðeins meira í jarðalögunum. Bara eitt atriði enn, réttur ábúanda til að nýta vatns- og jarðhitaréttindi hefði t.d. mátt vera honum meira í hag.