Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 14:45:03 (5778)

2004-03-30 14:45:03# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., AKG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[14:45]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns gera athugasemdir við það hvernig þetta mál ber að landbn. Eins og komið hefur fram, bæði í máli manna í dag og áður hefur þetta mál áður komið fyrir Alþingi og verið sent út til umsagnar. Frv. þetta var síðan lagt fram til kynningar á búnaðarþingi fyrir nokkrum vikum en var fyrst lagt fram til kynningar á Alþingi í gær. Tíminn sem þingmenn í landbn. hafa til að kynna sér þessi viðamiklu, merkilegu og mikilvægu mál, bæði frv. til ábúðarlaga og til jarðalaga, er því afar skammur. Auk þess þurftum við að sitja fund í morgun, m.a. með fulltrúa frá landbrn., sem var að fara yfir þetta mál með okkur. Ég lét í ljósi óánægju mína með það í morgun að þannig væri að málum staðið. Ég tel að til að yfirferð okkar yfir málið geti verið markviss þurfi þingmenn að kynna sér málið sjálfstætt. Ég reikna með því að það sé almennt ekki vilji þingmanna að þeir séu mataðir.

Þá ætla ég að snúa mér að efni frumvarpanna. Í fyrsta lagi sé ég að skilgreiningar í 2. gr. þessara lagafrv. eru ekki þær sömu. Þó er um að ræða sama málaflokkinn og að sjálfsögðu sömu orð, sem ég tel að skýra þurfi jafnt í öðru frv. sem hinu. Hér er t.d. ekki skýrt hvað ítak þýðir eða gefin skilgreining á ríkisjörð, sú skilgreining er þó í frv. til jarðalaga.

Í 4. gr. stendur að ábúendur geti samkvæmt lögum þessum verið einstaklingar. Samkvæmt skýringum við 4. gr. þýðir það að félagasamtök geta ekki tekið jarðir á leigu og tekist á hendur þær skyldur og öðlast réttindi sem getið er um í þessu lagafrv. Hagsmunaaðilar gagnvart jörðinni eru eigandi jarðarinnar, ábúandi jarðarinnar, byggðarlagið sem viðkomandi jörð er í og hið stærra samfélag. Að sjálfsögðu þarf að gæta þess að hagsmuna eins sé gætt án þess að troða á hagsmunum annars. Ég er á því að í vissum tilfellum er í þessu frv. um bót að ræða frá fyrri lögum en í öðrum tilfellum tel ég um mjög vafasöm atriði að ræða. Ég vil t.d. nefna 7. gr. þar sem stendur, með leyfi forseta:

,,Við upphaf ábúðar skal liggja fyrir úttekt úttektarmanna skv. 39. gr. um ástand jarðar, ræktunar og mannvirkja og annað er máli skiptir gerð á síðustu sex mánuðum. Jarðareigandi greiðir kostnað af slíkri úttekt.``

Segjum svo að tíð ábúendaskipti verði á jörðum. Það þýddi að jarðeigandi þyrfti að kosta úttekt á jörð sinni hvað eftir annað. Þarna eru honum lagðar á herðar skyldur sem ég tel að gætu orðið þungar og jafnvel ónauðsynlegar.

Í 10. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Ábúandi skal hafa öll leiguliðaafnot ábúðarjarðar sinnar. Það eru leiguliðaafnot að hafa full afnotaumráð þeirra nytja sem jörðin sjálf gefur af sér án þess að hún eða sá hluti hennar sem afraksturinn gefur rýrni eða eyðileggist við notkunina. Til leiguliðaafnota telst ræktun og öll mannvirki svo og greiðslumark og hlunnindi er jörðinni fylgja, sbr. þó 11. gr. og ákvæði til bráðabirgða I.``

Það er sérstaklega þetta með hlunnindin sem ég vil taka til umfjöllunar. Í 11. gr. er fjallað frekar um þessi leiguliðaafnot og þar segir í síðari málsgreininni, með leyfi forseta:

,,Jarðareigandi og ábúandi geta samið um víðtækari afnot af réttindum skv. 1. mgr. enda séu slíkir samningar í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma.``

Í fyrri málsgreininni er talinn upp fjöldinn allur af leiguliðaafnotum, t.d. vatns- og jarðhitaréttindi, sand- og malarnámur og önnur jarðefni, sem ég tel eðlilegt að jarðeigandi og leiguliði geti samið um, t.d. að leiguliði geti nýtt sandnámur eða malarnámur og þar með hækki afgjald fyrir jörðina. En setjum svo að jarðeigandi sjálfur vilji nytja ákveðin hlunnindi á jörðinni. Ég ætla að taka æðarvarp sem dæmi. Að sinna æðarvarpi krefst ákveðinnar þekkingar. Ég þekki dæmi þess að þau hlunnindi hafi rýrnað mjög vegna vankunnáttu í umsjón leiguliða. 11. og 10. gr. gefa ekki færi á að semja um minni réttindi leiguliða til nýtingar á hlunnindum. Það tel ég mikinn galla og í raun alveg ófært. Ég tel að mönnum hljóti að eiga að vera leyfilegt að semja um minni afnotarétt jafnt sem meiri afnotarétt af hlunnindum á jörðunum.

Í 15. gr. er talað um veðsetningu þar sem ábúanda er gert heimilt að veðsetja ábúðarjörð sína. Í greininni segir í 2. mgr., með leyfi forseta:

,,Heimildir ábúanda til veðsetningar á ábúðarjörð sinni eru bundnar því skilyrði að heildarskuldir ábúanda sem tryggðar eru með veði í jörðinni nemi ekki hærri fjárhæð en svarar til eignarhluta hans í ræktun og mannvirkjum á jörðinni.``

Í þessari grein og skýringunum sem fylgja á bls. 20 kemur fram ósamræmi. Í skýringum við 15. gr. er aðeins talað um mannvirki á jörðinni en í lagagreininni er talað um ræktun. Ábúanda er samkvæmt greininni heimilt að veðsetja ræktun en skýringarnar virðast ekki gera ráð fyrir því, enda tel ég það vægast sagt afar hæpið, frú forseti, að heimilt sé að veðsetja ræktun. Við ábúendaskipti stæði væntanlega eigandi jarðarinnar frammi fyrir því að þurfa að greiða af veðinu sem er af ræktun eða þá að öðrum kosti selja viðkomandi ræktun til að losna við þetta veð og ábúandi stendur ekki undir því. Þetta finnst mér ekki standast og hljóta að þurfa breytinga við.

Ég vil líka gera athugasemd við 20. gr. Þar segir að ábúanda sé heimilt að leyfa not landsnytja til beitar og slægna án leyfis jarðareiganda. Ég tel að þarna geti verið um vafasaman gerning að ræða. Við vitum t.d. að það tíðkast að hross séu tekin í beit. Ég tel að jarðeiganda eigi að vera heimilt að setja skilyrði um hvernig þeim málum sé fyrir komið þannig að ekki verði um ofbeit að ræða. Það er ekki heimilt samkvæmt þessari grein.

26. gr. um rétt til ábúðar við skilnað hjóna og 32. gr. til erfðaábúðar finnast mér sérkennilegar, sérstaklega þó 2. tölulið í 32. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Erfðaréttur erfist til barns þess hjóna sem erfðaábúðarréttindin stofnaði eða erfði og til barna þeirra og kjörbarna.`` --- Þarna vantar mig skýringu. Mér finnst afar einkennilegt orðalagið ,,til barns þess hjóna``. Ég held að það hljóti að vera hægt að koma þessu á betri íslensku. Ég held að alveg væri hægt að segja einfaldlega: Erfist til barns þess einstaklings. Það nær sama markmiði, eftir því sem ég skil þessa grein. Hins vegar finnst mér ekki ljóst hvaða börn og kjörbörn er verið að ræða um og hvaða barn þessara hjóna er þarna raunverulega verið að tala um. Þetta er mjög illa orðað.

Í 8. tölulið 32. gr. virðist mér vera rökvilla. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Ef erfingi ábúðarréttar deyr barnlaus innan tíu ára frá því að hann tók við ábúð, enda hafi hann ekki tekið kjörbarn áður en hann lést, hefur næsti erfingi rétt til að ganga inn í ábúðina.`` Ég lít þannig á að maður sem hafi tekið kjörbarn sé ekki barnlaus. Þetta er því bara della sem þarna stendur, virðulegi forseti.

Í V. kafla, 34. gr., stendur um ábúðarlok, með leyfi forseta, í 2. mgr.:

,,Ef ábúandi deyr áður en tímabundnum ábúðarsamningi lýkur skal dánarbú hans segja upp ábúðarsamningnum. Slík uppsögn skal fara fram fyrir áramót og taka gildi í næstu fardögum nema um annað sé samið.``

Þarna getur dánarbú lent í því, eins og ég skil þessa grein, að þurfa að greiða leigu af viðkomandi jörð í eitt og hálft ár, mjög langan tíma. (Gripið fram í.) Já, þarna er um marga mánuði að ræða. Ég var búin að reikna mig fram í eitt og hálft ár en vera kann að það sé vitleysa.

Annað við þetta frv. olli mér líka mikilli umhugsun, þ.e. hvernig réttur sveitarstjórna til afskipta er skertur í lagafrv. Ég er sammála því sem komið hefur fram í máli manna fyrr í dag að það þarf að tryggja að eigandi hafi ákveðinn rétt yfir eign sinni. En þær aðstæður kunna að koma upp að samfélagið þurfi að hafa ákveðin afskipti af því hvernig með þessa eign sé farið. Ég ætla að taka sem dæmi að mér sýnist að í þessum lögum sé komið til móts við þá sem hafa keypt jarðir til tómstundaiðkunar, t.d. hrossaeigendur. Við vitum líka að talsvert er um að stóreignamenn hafi keypt jarðir meðfram veiðiám. Ég þekki þess dæmi að heilu dalirnir séu í eigu manna sem búa víðs fjarri og koma þar hvergi nærri nema til að veiða þar nokkra daga á ári. Nú kunna þessir tilteknu einstaklingar að vera margir og þeir kunna að vera fáir. Þeir hafa kannski þá skoðun að þeim sé ekki til hagsbóta að stunda eða láta stunda landbúnað á þessum jörðum sínum en þá getur það þýtt að bestu jarðirnar í gróinni sveit standi auðar og séu ekki nýttar til landbúnaðar allt árið. Þetta tel ég hæpið.

Ég held að íbúar í þéttbýli mundu illa sætta sig við að einhver tæki upp hjá sér að kaupa blokk, bara til að láta hana standa tóma. Við sjáum fyrir okkur hvernig það mundi líta út þegar við kæmum í sveitarfélög þar sem gardínulausar blokkir, auðsjáanlega tómar, stæðu ár eftir ár. Þetta eru auðvitað mynd sem ég dreg upp til samanburðar en hv. þm. geta væntanlega ímyndað sér hvernig er að koma í sveit og sjá heilu svæðin án ábúðar. Jarðirnar fara smám saman úr rækt. Eins og ég sagði mun það oft þýða að nýtingin færist, jafnvel á óhagkvæmari svæði. Þó að það sé gott og gilt að vilja koma til móts við þá sem kaupa sér jarðir til að iðka tómstundir þá þarf líka að gæta hagsmuna þeirra byggðarlaga sem í hlut eiga.

Ég tek undir með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni varðandi það að þetta ákvæði með gildistökuna er alveg út í hött. Eins og hér hefur komið fram er stuttur tími til þingloka og bæði tvö frumvörpin mjög viðamikil og þurfa vandaða umfjöllun. Ég tel að það þurfi að fá umsagnir fjölmargra aðila af því að margs konar hagsmunir eiga í hlut. Það kunna að verða árekstrar oft og tíðum og okkar er að reyna að finna einhvern milliveg. Þetta er það helsta sem ég hef um málið að segja í þessari umferð.