Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 15:21:03 (5786)

2004-03-30 15:21:03# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er um mikilvægt mál að ræða og ég tel að það hefði átt að leggja það fyrr fram og taka góðan tíma í að ræða það. (Gripið fram í.) Það er ómögulegt að landbn. verði sett í tímapressu með þetta mál og ég mun rekja það nánar hér í ræðu minni, hv. þm. Drífa Hjartardóttir.

Eins og áður segir er þetta mikilvægt mál sem snertir mjög ríka hagsmuni einstaklinga víða um land. Í framhaldi af því, til að varpa skýrara ljósi á frv., vil ég spyrja hæstv. landbrh. Guðna Ágústsson nokkurra spurninga og vonast til þess að svörin auðveldi okkur að taka afstöðu til málsins og landbn. vinnuna. Í fyrsta lagi: Hvað eru ábúendur margir? Ég sé það ekki í greinargerðinni. Við höfðum skamman tíma til að lesa frv. í gegn og það væri áhugavert að fá það upp hvað þetta snertir marga einstaklinga og fjölskyldur.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra hvort ábúendur hafi með með sér eitthvert félag. Ég held að það sé nauðsynlegt að fá fram sjónarmið þeirra í þessu máli vegna þess að hér hefur ítrekað komið fram að verið sé að tryggja rétt jarðeigenda. Það er eflaust ágætt. En það er nauðsynlegt að hlutur ábúenda verði ekki fyrir borð borinn og menn leiti eftir sjónarmiðum þess hóps. Ég tel ekki nægjanlegt að leita bara beint í Bændasamtökin þó að þau séu góð og gegn. Ég er ekkert endilega viss um að sjónarmið ábúenda séu þar ríkjandi, ég er ekki viss um það. Ég tel þess vegna að það sé rík skylda á formanni landbn., hv. þm. Drífu Hjartardóttur, að leita sérstaklega eftir sjónarmiðum þeirra. Ég vil spyrja hvort leitað hafi verið eftir sjónarmiðum þeirra þegar frv. var samið. Mér finnst mikilvægt að fá svör við því hér hjá hæstv. ráðherra, Guðna Ágústssyni.

Ég tek einnig undir það með hv. þm. Pétri H. Blöndal að það sé rétt að taka á greiðslumarkinu og ræða það hér þegar við erum að ræða um ábúendur. Þess eru dæmi, og þau ljót, m.a. austur á landi, á Vestfjörðum og víða um land, að þegar fólk, sem hefur verið ábúendur og jafnvel flutt með bústofn sinn á eyðijarðir, hefur ætlað að bregða búi hefur greiðslumarkið skyndilega orðið eign jarðeiganda. Ég þekki nokkur dæmi um þetta og það þarf að taka á því. Mér finnst að hæstv. landbrh. ætti að taka það mál upp í tengslum við þetta og jafnvel að ræða það hér hvort ekki sé rétt að bæta þessu fólki það tjón sem hefur orðið. Ég held að varla hafi verið markmið löggjafans að svipta þetta fólk þessum réttindum og færa jafnvel vinnu þess og starf í hendur jarðeigenda. Ég get ekki séð það. Því væri fróðlegt að fá að heyra sjónarmið hæstv. landbrh. í þessu máli.