Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 15:25:08 (5787)

2004-03-30 15:25:08# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr hvað ábúendur séu margir. Mjög margar ríkisjarðir hafa verið seldar. Þær gætu verið um 300 talsins eftir en þeim hefur farið hríðfækkandi því að áhugi ábúendanna á að nýta sér kaupréttinn hefur verið mikill. Ég hef verið stórtækur jarðasali hvað það varðar að selja fólkinu sem hefur setið þessar jarðir vel jarðirnar á síðustu árum. (Gripið fram í: ... ráðherra ...) Nei, það eru fáir í þeim hópi sem hafa keypt. En flestir eru þetta góðir bændur sem hafa setið jarðirnar og kosið á síðustu árum að nota sér réttinn og eignast þær.

Ég hef ekki heldur hugmynd um en ég hygg að það séu mjög fáir ábúendur í dag á einkajörðum. Það er engin tilkynningarskylda um það þannig að ég hef ekki tölur um það. Hér er ekki verið að tryggja rétt bara jarðeigenda, eins og komið hefur fram í þessari umræðu, það er verið að jafna þennan rétt töluvert mikið. Réttur ábúenda verður heilmikill á eftir.

Ég hef sagt í umræðunni að það er alveg ljóst að þessi breyting á löggjöfinni er tímabær. Gildandi lög eru mjög úrelt og þau geta meira að segja stuðlað að því að jarðir verði fremur byggðar.

Hv. þm. minnist svo á þetta atriði sem einhver dæmi eru um, sorgleg dæmi, að leiguliðar eða ábúendur sem hafa byggt upp rétt á á jörðum einstaklinga o.s.frv. hafa tapað honum, ekki fengið að njóta hans. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni, ég þekki einhver svona dæmi sem hafa gengið fyrir dómstóla þannig að það er eitthvað sem ekki er tekið upp á nýjan leik og hefur auðvitað gengið sína leið.

Það verður hver að gá að sér þar sem hann er staddur og semja fyrir sig en ég tek undir að ég þekki einhver tilfelli þar sem fólk hefur farið illa út úr því eftir að tekið var upp greiðslumark, kvóti o.s.frv. Það byggði upp bústofn á jörð sem leiguliðar og naut hans ekki, gat hvorki farið með hann né selt hann. Ég tek undir með hv. þingmanni að það eru ýmis sorgleg dæmi í því.