Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 15:29:27 (5789)

2004-03-30 15:29:27# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[15:29]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fullyrði að ríkið hefur farið vel með ábúendur sína og leiguliða og gefið þeim mikinn rétt. Frv. sem ég mæli fyrir hér á eftir eykur þann rétt og styttir þann tíma sem menn þurfa til að fá kauprétt á leigujörðinni. Þessir aðilar hafa ekki séð ástæðu til að stofna með sér samtök ábúenda, heldur hafa þeir notið bæði sterkrar lagaumgjarðar og góðrar meðferðar af hálfu landbrn. í gegnum tíðina.

Ég get ekki sagt að hvar sem einstaklingar verði fyrir slysum geti ríkið alltaf borgað skaðann. Þetta eru auðvitað skattpeningar almennings. Þau mál sem hv. þm. minntist á, að einstaklingar hafi byggt upp rétt á jörðum og ekki fengið að njóta hans við sölu o.s.frv., hafa sum hver gengið fyrir Hæstarétt og ég sé ekki hvernig ríkið á að grípa inn í þau eða bæta því fólki þann skaða. Það er skaði sem hefur orðið milli tveggja aðila. Hæstiréttur er æðsti dómstóll okkar og þekkt er að ekki þýðir að deila við dómarann. Hygg ég að þeir séu sammála mér í því í Frjálsl.