Jarðalög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 15:33:05 (5791)

2004-03-30 15:33:05# 130. lþ. 90.4 fundur 783. mál: #A jarðalög# (heildarlög) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[15:33]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til jarðalaga sem er 783. mál þingsins á þskj. 1194.

Um er að ræða frv. til nýrra jarðalaga og má segja að það sé eins og hitt frv. búið að vera lengi í smíðum og hefur farið í gegnum mikla vinnslu í landbrn., til umsagnar sveitarfélaga og búnaðarþings. Það er komið fyrir þingið eins og á síðasta löggjafarþingi og hefur verið sent til umsagnar og fengið umfjöllun og hefur verið tekið tillit til margra tillagna í þessari vegferð. Frumvarpið er samið í landbrn. samkvæmt ósk minni sem landbrh. og er því ætlað að leysa af hólmi núgildandi jarðalög, nr. 65/1976, með síðari breytingum. Það er lagt fram samhliða frv. til nýrra ábúðarlaga sem ætlað er að leysa af hólmi núgildandi ábúðarlög, nr. 64/1976, með síðari breytingum, og hefur verið reynt að samræma ákvæði þessara lagafrumvarpa eins og kostur er. Ljóst er að gildandi jarðalög eru í fjölmörgum atriðum orðin úrelt og eiga ekki lengur við aðstæður á Íslandi í dag. Gildandi jarðalög voru sett á árinu 1976 en frá þeim tíma hafa orðið miklar breytingar í landbúnaði eins og á öðrum sviðum í þjóðfélaginu. Má í raun segja að allar forsendur í landbúnaði séu gjörbreyttar frá þeim tíma.

Í núgildandi jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum, eru ýmis ákvæði sem fela í sér umtalsverðar takmarkanir á rétti jarðeigenda til meðferðar og ráðstöfunar á jörðum sínum. Hér má t.d. nefna að land sem nýtt var til landbúnaðar við gildistöku laga nr. 65/1976 er óheimilt að taka til annarra nota nema með leyfi landbrh. Sveitarstjórnir og jarðanefndir sem eiga að hafa eftirlit með meðferð og ráðstöfun jarða og starfa fyrir hverja sýslu þurfa að samþykkja hvers konar aðilaskipti að jörðum, hvort heldur er fyrir kaup, gjöf, skipti, sameiningu, nauðungarsölu, búskipti, félags- og sameignarslit, fyrirframgreiðslu arfs, lán, leigu og ábúð o.fl. Enn fremur eiga sveitarfélög forkaupsrétt að næstum öllum jörðum sem seldar eru í sveitarfélaginu. Örfáar undantekningar eru frá þessu íhlutunarvaldi sveitarstjórna og jarðanefnda sem gilda einkum um ríkisjarðir og jarðir sem ráðstafað er til náinna ættingja jarðareiganda. Einnig má nefna að ef einn sameigandi jarðar sem er í óskiptri sameign fleiri aðila rekur bú á jörðinni getur hann með vissum skilyrðum fengið leyfi landbúnaðarráðherra til að leysa til sín eignarhluta sameigenda sinna í jörðinni án tillits til þess hvort sameigendur hans eru því samþykkir eða andvígir. Fyrir eignarhlutann greiðir hann matsverð sem ákveðið er af matsnefnd eignarnámsbóta. Sömu heimildir hefur aðili sem rekur bú á jörð til að leysa til sín jarðarpart sem skipt hefur verið út úr jörðinni.

Framangreindar takmarkanir á eignarráðum jarðareiganda hafa verið skýrðar með hliðsjón af 1. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, en þar kemur fram að tilgangur laganna sé að tryggja að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda. Með framangreindum ákvæðum hefur verið reynt að tryggja að byggð haldist í sveitarfélögum á landsbyggðinni og að jarðir sem eru hæfar til búskapar séu nýttar til landbúnaðarstarfsemi.

Með frumvarpi þessu er ekki eingöngu lögð áhersla á landbúnað og hagsmuni sveitarfélaga þótt það séu auðvitað mikilvægir þættir í ákvæðum frv. heldur er þar einnig lögð áhersla á að opna aðgang almennings að landi okkar. Hefðbundinn landbúnaður hefur dregist saman á undanförnum árum og ættliðaskipti ekki orðið með sama hætti og áður. Jarðir sem nýttar voru til landbúnaðar hafa verið teknar til annarra nota, t.d. fyrir sumarhúsabyggð, aðra frístundastarfsemi o.fl. Ekki er sama þörf og áður fyrir að jarðir hér á landi séu nýttar til landbúnaðarstarfsemi. Þegar litið er til þeirra breytinga sem orðið hafa í landbúnaði síðan jarðalög, nr. 65/1976, voru sett og þess að forsendur í landbúnaði sem voru fyrir hendi á þeim tíma eru í raun mjög breyttar tel ég að kominn sé tími til að gera breytingar á íslenskri löggjöf að þessu leyti og slaka að nokkru leyti á þeim takmörkunum á ráðstöfunarrétti jarðareiganda sem fram koma í jarðalögum, nr. 65/1976.

Frumvarp þetta felur í sér miklar breytingar á þeim ákvæðum sem fram koma í jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum. Með ákvæðum þessa frumvarps er stefnt að því að færa löggjöf um jarðir í átt til nútímans og að samræma eins og unnt er eignarrétt og umsýslu jarða þeim meginreglum sem gilda um aðrar fasteignir í íslenskri löggjöf. Eins og áður hefur verið gerð grein fyrir eru í gildandi löggjöf verulegar takmarkanir á ráðstöfunarrétti jarðeigenda og ýmsar kvaðir lagðar á þá sem geta verið mjög íþyngjandi og hafa oft í framkvæmd reynst ósanngjarnar. Með frumvarpi þessu er ætlunin að bæta að nokkru leyti úr þessum annmörkum án þess að gengið sé lengra en þörf krefur.

Hæstv. forseti. Í frumvarpi þessu eru einnig nokkrar breytingar sem eiga rætur að rekja til þess að Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert ýmsar athugasemdir við nokkur ákvæði jarðalaga nr. 65/1976 og telur þau brjóta gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA hafa einkum beinst að ákvæðum 6. gr. laganna um um tvöfalt samþykki sveitarstjórnar og jarðanefndar, 11. gr. laganna sem áskilur að þeir sem vilji kaupa jarðir eða fá umráðarétt yfir jörðum og nýta þær til landbúnaðar skuli hafa stundað landbúnað hér á landi í a.m.k. tvö ár nema landbrh. veiti undanþágu frá því svo og ákvæði 30. gr. laganna um forkaupsrétt sveitarstjórna og Jarðasjóðs ríkisins. Með frumvarpi þessu er að reynt að koma að verulegu leyti til móts við sjónarmið Eftirlitsstofnunar EFTA án þess þó að gengið sé lengra en þörf krefur í því efni.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frv. eru þessar:

1. Markmiðum eða tilgangi laganna er breytt nokkuð í ljósi breytinga sem orðið hafa á aðstæðum, atvinnuháttum og nýtingu jarða í íslensku þjóðfélagi. Gildandi jarðalög, nr. 65/1976, leggja of einhliða áherslu á landbúnaðarnot miðað við breytta atvinnuhætti og er reynt að breyta ákvæði 1. gr. í samræmi við það en jafnframt að tryggja þá veigamiklu hagsmuni sem fólgnir eru í þeim landkostum sem til eru hér á landi.

2. Jarðanefndir eru aflagðar með frumvarpinu. Í stað þess er gert ráð fyrir að sveitarstjórnum sé skylt að hafa starfandi sérstakar landbúnaðarnefndir sem hafa það hlutverk að hafa eftirlit með að eignarhald og meðferð jarða og annars lands sé í samræmi við lög og að vera ráðgefandi fyrir sveitarstjórnir um öll mál er varða gildissvið laganna, sbr. 10. gr. Felld hafa verið niður ákvæði 6. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, um að samþykki sveitarstjórnar og jarðanefndar þurfi til aðilaskipta að jörðum, öðru landi eða fasteignum sem lögin gilda um. Í stað þess er einungis skylt að tilkynna slík aðilaskipti til sveitarstjórnar, sbr. 15. gr., og lögð skylda á sveitarstjórn að halda skrá um slík aðilaskipti.

3. Fellt er niður ákvæði 11. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, um að aðilar sem óska eftir að kaupa land eða aðra fasteign hér á landi sem fellur undir ákvæði laganna og nýta hana til landbúnaðar þurfi að hafa stundað landbúnað hér á landi í tvö ár nema landbúnaðaráðherra veiti undanþágu í einstökum tilvikum.

4. Felld eru niður ákvæði um innlausnarrétt ábúenda og sameigenda að eignarhluta í jörðum sem eru í óskiptri sameign, sbr. 13. gr. gildandi jarðalaga, nr. 65/1976, með síðari breytingum, og landspildum sem skipt hefur verið út úr jörðum, sbr. 14. gr. laganna.

5. Breytt er verulega ákvæðum gildandi jarðalaga, nr. 65/1976, um forkaupsrétt sveitarfélaga að jörðum en skilyrði þess að sveitarstjórn geti neytt forkaupsréttar eru þau að sveitarfélagi sé þörf á jörð sem á að selja til nota fyrir starfsemi sveitarfélagsins eða til sameiginlegra nota fyrir íbúa sveitarfélagsins. Þá er fellt niður ákvæði um að sveitarfélög geti framselt forkaupsrétt sinn til Jarðasjóðs ríkisins.

6. Óheimilt er að stofna ný ættaróðul eftir gildistöku laganna en miðað við að þær jarðir sem eru ættaróðul geti verið það fram að andláti núverandi óðalseiganda og gildir VII. kafli laganna um þær jarðir. Ættaróðalið skal þá falla úr óðalsböndum og jörðin erfast í samræmi við ákvæði erfðalaga, nr. 8/1962, með síðari breytingum. Þrátt fyrir ofangreint á óðalseigandi rétt á að halda ættaróðal í óðalsböndum eftir næstu ættliðaskipti og óslitið eftir það ef sótt er um leyfi landbúnaðarráðherra til þess efnis og sýnt fram á að um eignarhald og meðferð ættaróðalsins hafi að öllu leyti verið gætt ákvæða þessara laga og eldri laga um sama efni.

7. Ef fleiri eigendur eru að jörðum eða jarðahlutum er þeim skylt að hafa með sér félag um eignarhald, fyrirsvar og rekstur jarðarinnar eða jarðarhlutans og er skylt að tilnefna sérstakan forsvarsmann félagsins sem kemur fram fyrir hönd félagsins gagnvart sveitarstjórn og öðrum aðilum við úrlausn mála er lúta að réttindum og skyldum jarðeigenda. Nánari ákvæði eru í lögunum um heimildir forsvarsmannsins, en aðrar ráðstafanir þurfa að jafnaði samþykki allra félagsmanna. Undantekningar eru frá þessu ákvæði ef eigendur jarðar eru hjón eða foreldrar og ófjárráða börn þeirra.

Í frv. eru fjölmargar aðrar breytingar sem of langt mál er að rekja hér en þær eru flestar tilgreindar á bls. 22--27 í greinargerð er fylgir frv. Ég læt þetta nægja í bili og vek athygli á því að í greinargerð með frv. og athugasemdum við einstakar greinar frv. er gerð ítarleg grein fyrir þeim breytingum sem frv. hefur í för með sér miðað við núgildandi jarðalög, nr. 65/1976.

Á fylgiskjali með frv. er að finna kostnaðarumsögn fjmrn. um frv. og læt ég nægja að vísa þangað. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frv. og athugasemda með frv.

Hæstv. forseti. Nú er liðinn rúmlega aldarfjórðungur síðan núgildandi jarðalög, nr. 65/1976, voru samþykkt. Ljóst er að miklar breytingar hafa orðið hér á landi á þessum langa tíma sem beinlínis kalla á að breytingar verði gerðar á núgildandi löggjöf um þetta efni. Í frv. því sem hér liggur fyrir hefur verið reynt að svara því ákalli og koma til móts við þær þarfir sem skapast hafa í íslenskum landbúnaði og annarri landnýtingu, meðferð og umsýslu jarða hér á landi. Ég tel því að hér sé um að ræða nauðsynlega tímamótalöggjöf sem mikilvægt er að þingið taki til alvarlegrar skoðunar miðað við núgildandi aðstæður í íslenskum landbúnaði og hvernig landnýtingu er að öðru leyti háttað svo og annarri meðferð og umsýslu jarða hér á landi. Það er von mín að frv. og þau ákvæði sem það hefur að geyma sé svar við kröfum nútímans um sanngjarna löggjöf um eignarhald, meðferð og nýtingu lands á Íslandi í dag.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.