Jarðalög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 15:48:40 (5792)

2004-03-30 15:48:40# 130. lþ. 90.4 fundur 783. mál: #A jarðalög# (heildarlög) frv., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[15:48]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur mælt fyrir frv. til jarðalaga. Í upphafsgrein frv. segir:

,,Markmið þessara laga er að setja reglur um réttindi og skyldur þeirra sem eiga land og nýta það og stuðla að skipulegri nýtingu lands í samræmi við landkosti, fjölþætt hlutverk landbúnaðar og hagsmuni sveitarfélaga og íbúa þeirra, svo og að tryggja svo sem kostur er að land sem vel er fallið til búvöruframleiðslu verði varðveitt til slíkra nota.``

Ég tel, herra forseti, að í sjálfu sér sé þetta markmið góðra gjalda vert. Það mætti kannski tína til fleiri markmið, fleiri skyldur sem hvíla ættu á þeim sem eiga að bera ábyrgð á landi, fleiri skyldur sem lúta að almannarétti, nýtingarrétti eða aðkomu heimafólks að viðkomandi svæðum. Það ætti kannski að kveða enn sterkar á um það í 1. gr.

Hæstv. ráðherra gat þess í framsögu sinni að verið væri að færa hina lagalegu umsýslu landsins í átt til þess sem á sér stað um aðrar eignir. Víst má til sanns vegar færa að ákveðnar breytingar er nauðsynlegt að gera á jarðalögum. Hins vegar er mikilvægt að hafa hugfast að það er ekki sjálfgefið að sömu lög gildi um meðferð á jörðum og öðrum slíkum náttúruauðæfum og gilda um fasteignir, þ.e. mannvirki, hús og annað slíkt. Það er alls ekki sjálfgefið að hliðstæð lög og reglur gildi um það. Svo er reyndar alls ekki. Flest lönd hafa löggjöf sem takmarkar meira ráðstöfunarrétt einstaklinga á löndum og jarðarinnar gæðum en öðrum fasteignum.

Ég vil hvetja til þess að við vinnu og afgreiðslu þessa frv. sé gætt varfærni. Hér er um að ræða meðferð og ráðstöfun lands til lengri tíma, miklu lengri tíma en snertir takmarkað eignarhald einstaklinganna. Hér er fjallað um land og landgæði sem snúa að fleiri en einum einstaklingi. Þess vegna ætti lagaumgjörðin að taka mið af því.

Í grg. með þessu frv. er bent á að önnur lönd hafa mjög ákveðnar takmarkanir á meðferð jarðeigna í landbúnaðarnotum. Ég vil vitna til þess sem stendur hér í grg., með leyfi forseti. Hér stendur:

,,Í Danmörku eru víðtækar takmarkanir á meðferð jarðeigna í landbúnaðarnotum og þarf leyfi ráðherra til að leysa slíkar eignir undan skyldu til landbúnaðarnota ... Í Noregi eru einnig víðtækar takmarkanir á meðferð og nýtingu lands sem er í landbúnaðarnotum og miðað við að halda skuli öllu slíku landi í ræktun og að ekki megi taka það til annarra nota en landbúnaðarstarfsemi, nema landbúnaðarráðuneytið veiti til þess leyfi. Það gildir þó ekki um land sem hefur verið skipulagt eða ráðstafað hefur verið til annarra nota með skipulagsáætlun eða öðrum ákvörðunum stjórnvalda.``

Það er mikilvægt að líta til þess að önnur lönd hafa farið varlega í og viljað hafa fingurna í ráðstöfun og meðferð á landi. Ég er því ekki alveg sammála því sem stendur í grg. Þar er fullyrt og því slegið fram eins og segir, með leyfi forseta:

,,Hér á landi er ekki sama þörf fyrir land til landbúnaðarnota og áður en víða um heim er hins vegar lögð mikil áhersla á að vernda land sem nýtanlegt er til landbúnaðar og matvælaframleiðslu.``

Ég tel, virðulegi forseti, ekki síðri þörf til að huga að meðferð og nýtingu lands á Íslandi. Heilu samfélögin byggja á að geta nýtt þessar auðlindir, bæði til búsetu og framfærslu fyrir einstaklinga sem þar búa og einnig til uppbyggingar þess samfélags. Þörfin birtist með öðrum hætti en erlendis. Við eigum við ákveðið dreifbýli að stríða. Við eigum líka við það að stríða að þeir sem búa úti í dreifbýli geta oft ekki nýtt sér landsins gæði, þó að þau liggi að þeim, vegna þess að þau eru komin í hendur annarra sem hirða ekki um þau verðmæti út frá sjónarhóli þeirra sem búa á svæðinu. Hjá þjóðum erlendis eru settir ákveðnir varnaglar um ráðstöfun þessa lands. Ég tel að við ættum einnig að vera á varðbergi og gæta þess að rétturinn til að nýta þessi landsgæði sé fyrst og fremst bundinn við það fólk sem býr á viðkomandi svæðum og er háð því að nýta þær auðlindir og því að þær gangi þá ekki úr sér. Sú þörf er ekkert síðri hér en í öðrum löndum. Þau rök sem í öðrum löndum eru færð fyrir því að standa vörð um landgæðin og nýtingu þeirra eiga eins við hér og þar.

Ég vil líka benda á þau rök að alþjóðlegir dómstólar, kröfur frá EFTA eða Eftirlitsstofnun EFTA, geri kröfu til að við breytum lögum um meðferð jarðeigna hér. Það má vel vera tilfellið en ég geld varhuga við því að við göngum þar harðar fram en efni standa til og búum okkur til þörf til þess að verða við tilskipunum frá Eftirlitsstofnun EFTA. Við höfum almennt fengið nóg af því. Skoða mætti málin hjá öðrum löndum sem eru undir sömu reglugerð sett, Danmörku, Noregi og öðrum Norðurlöndum. Fróðlegt væri að vita hvernig þessum málum er háttað, t.d. á Englandi og Skotlandi, varðandi heimild til ráðstöfunar lands, réttindi og skyldur samfélagsins annars vegar og hugsanlegra eigenda hins vegar. Við megum ekki búa okkur til einhverjar sér\-ástæður og sérafsökun í skjóli erlendra reglna sem ekki hafa kannski nægilega vísun íslenskan veruleika og önnur lönd kunna að hafa meðhöndlað á annan hátt. Okkur er gjarnt að hlaupa þar fram úr okkur í þeim efnum.

Ég vil ítreka það sem ég sagði við umræðuna um ábúðarlögin, að það er nauðsynlegt, þegar þessi lög eru endurskoðuð og þeim breytt, að horft sé til annarra laga sem lúta að aðkomu hins opinbera að ráðstöfun lands sem falla niður við þessar lagabreytingar. Við höfum þar skipulagslög og skyldur sveitarfélaga sem hafa gert ráð fyrir aðkomu sinni að málum í gegnum þau lög. Nú þurfa þau að athuga hvaða þætti þau vilja áfram verja eða eiga möguleika á að nýta sér í gegnum önnur lög, t.d. skipulagslög. Í þessu frv. eru lagðar til gríðarlega miklar breytingar. Þær miða nánast alfarið að því að skerða aðkomu hins opinbera, sérstaklega sveitarfélaganna, að ráðstöfun lands frá því sem var. Vel má vera að þar séu ákveðnir þættir sem þyrftu endurskoðunar við en menn þurfa þar að ganga varlega um dyr og gæta þess að í óðagotinu í lagabreytingunum detti ekki niður nauðsynlegir varnaglar og eðlileg og nauðsynleg aðkoma sveitarfélaga að ráðstöfun lands, sem hætt er við.

Ég ítreka líka það sem ég sagði í umræðunni um ábúðarlögin. Ég hefði viljað sjá stefnumörkun af hálfu hins opinbera fyrir meðferð, eignarhald og nýtingu á jarðnæði í eigu ríkisins og almennt í landinu, að það ætti að vera eins konar inngangsgrein í lögunum hvaða stefnu sé lagt upp með.

Hjá hæstv. ráðherra kom fram að þetta mál hefur lengi verið í vinnslu og svo sem ekkert óeðlilegt við það þó að því þurfi líka að ljúka. Mér er kunnugt um að þetta var lagt fram til kynningar á síðasta búnaðarþingi, nýafstöðnu. Búnaðarþing taldi sér ekki unnt að fjalla um það efnislega á svo skömmum tíma, enda gríðarlega mikið og margflókið mál á ferðinni. Þingið óskaði eftir því að sérstök nefnd á vegum búnaðarþings fengi að fjalla um málið á milli þinga, sem ég tel að sé rækileg ábending um að þeir telji að skoða þurfi mun betur það frv. sem nú hefur verið lagt fram.

Það er mikilvægt að vinna málið vel og taka tillit til samfélagslegra hagsmuna bæði í nútíð og framtíð. Einnig þarf að taka tillit til sjónarmiða þeirra sem nýta og byggja landið á hverjum tíma. Menn gæti sín að falla ekki bara fyrir þeim sjónarmiðum sem uppi eru um frelsi einkaframtaksins til að vaða yfir allt og alla. Menn mega ekki falla í þá gryfju heldur verða þeir að líta á málið út frá framtíð íbúanna vítt og breitt um landið, búsetunnar og markmiða þeirra til langs tíma. Við vitum að meðferð þessa máls snertir stefnuna í byggðamálum, byggða- og búsetumálum. Þannig er að mörgu að hyggja þegar frv. til jarðalaga er lagt fram, með svo viðamiklum breytingum sem hér eru lagðar til.

Ég ítreka það, herra forseti, að ég tel að málið þurfi meiri umfjöllun og vandaðri meðferð, frekari skoðunar bæði af hálfu þingsins og einnig af aðilum utan þings, áður en ætlast má til að hægt sé að afgreiða það sem lög frá Alþingi í því formi sem það birtist.