Jarðalög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 16:11:55 (5798)

2004-03-30 16:11:55# 130. lþ. 90.4 fundur 783. mál: #A jarðalög# (heildarlög) frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ríkið er bara við, en hv. þm. er stöðugt að gera mér upp skoðanir. Kannski vill hún bara afhenda ríkinu Keldur sem er stór, vegleg og falleg jörð.

En málið snýst ekki um það. Málið snýst m.a. um eins og kemur fram í 1. gr. frv. um markmið laganna að ,,stuðla að skipulegri nýtingu lands í samræmi við landkosti, fjölþætt hlutverk landbúnaðar og hagsmuni sveitarfélaga og íbúa þeirra``. Ég legg áherslu á að staðið sé vörð um þetta og þess vegna sé athugað mjög gaumgæfilega áður en skert er svo verulega aðkoma sveitarfélaganna að ráðstöfun lands eins og frv. gerir ráð fyrir. Hvar við drögum mörkin er svo aftur annað mál. Frumvarpið miðar að því að skerða þá aðkomu sem sveitarfélögin hafa hingað til haft og því mjög mikilvægt að kanna hvort við séum sammála um það og hvort sveitarfélögin hafi aðra skoðun á því og einnig að tryggja lagalegan rétt þeirra í gegnum önnur lög. Við erum búin að fá meira en nóg af keðjum sem falla á veginn. Um leið og land er komið í einkaeign er komin keðja á veginn sem segir að hér sé einkavegur og óviðkomandi umferð bönnuð, óháð því hvort það sé lagalega heimilt eða ekki. En í gegnum aðkomu sveitarfélaganna hefur almenningur haft sinn rétt. Það þarf þá að athuga hvernig við getum tryggt hann með öðrum hætti.