Jarðalög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 16:14:02 (5799)

2004-03-30 16:14:02# 130. lþ. 90.4 fundur 783. mál: #A jarðalög# (heildarlög) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[16:14]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem fékk mig til að veita andsvar við ræðu hv. þm. var þessi ótrúlega árátta Vinstri grænna til miðstýringar og hvernig þeir umhverfast ef eitthvað er reynt að draga úr henni í landinu. Ég get ekki í fljótu bragði, bæði með því að hlusta á umræðurnar og lesa mér til um frv., séð að verið sé að ganga nema hið allra skemmsta til móts við eðlileg sjónarmið hvað varðar að breyta til frjálsræðisáttar meðferð eignar á jörðum og kominn tími til fyrir langa löngu.

Ákvæðin sem varða sveitarfélögin, sem hv. þm. segir að skerði vald sveitarstjórnanna, er fráleitt fyrirkomulag sem hefur verið í gegnum tíðina og hefur sett margar sveitarstjórnir í mikinn vanda að liggja undir þeim kröfum að þurfa að tryggja með einhverjum ráðum búsetu í sveitarfélaginu. Í raun og veru virðist hv. þm. vera að gera kröfu um að sveitarstjórnirnar hafi það á sinni könnu að geyma jarðir í eyði þangað til einhver vill búa á þeim.

[16:15]

Auðvitað er þetta ekki hægt. Eignarhald á jörðum verður að vera svipað eða eins og á öðrum eignum, þ.e. að menn geti farið með þær á eðlilegan og frjálsan hátt. Ég er ekkert að draga úr þeim möguleikum sem þurfa að vera til þess að menn fari með gát og að gengið sé vel um, að snyrtilega sé farið um eins og sveitarfélög eiga að tryggja hvert á sínu svæði. En ég vil fagna þessu frv. fyrst og fremst og kem hér upp til þess að mótmæla þeim hugsanagangi sem er á bak við andmæli hv. þingmanns.