Jarðalög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 16:16:19 (5800)

2004-03-30 16:16:19# 130. lþ. 90.4 fundur 783. mál: #A jarðalög# (heildarlög) frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[16:16]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég skil ekki almennilega af hverju hv. þm. var að koma hérna upp. Annars vegar var hann að gera mér upp orð varðandi allt sem ég hefði sagt og hins vegar kom hann til þess að árétta þau sjónarmið sín að sveitarstjórnir ættu ekkert að bera hag íbúa sveitarfélaga fyrir brjósti, að það væri ekki sveitarstjórna að huga að því hvernig atvinnu eða annarri umgjörð búsetu væri háttað. Ég er bara algjörlega andvígur hv. þm. Ég tel einmitt að sveitarstjórnir séu kosnar til þess, að þær séu kosnar til þess að standa vörð um hagsmuni íbúanna sem best að því marki sem þær geta komið þar að málum og þar á meðal nýtingu auðlinda þeirra sem búa á landinu sem viðkomandi sveitarfélag tekur yfir. Ég er því ekki sammála því sjónarmiði hv. þm. að sveitarstjórnum komi þetta ekkert við. Reyndar tel ég að það sé bara þveröfugt. Ég tel einmitt að hlutverk sveitarstjórna sé afar mikilvægt við ráðstöfun og meðferð á landsins gæðum í hverju sveitarfélagi og að þeim beri að huga að velferð íbúa sveitarfélagsins. Hluti af því er að huga að landsins gæðum sem innan sveitarfélagamarkanna eru.