Jarðalög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 16:18:11 (5801)

2004-03-30 16:18:11# 130. lþ. 90.4 fundur 783. mál: #A jarðalög# (heildarlög) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[16:18]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. sagði að ég hefði verið að gera sér upp orð. Það er ekki rétt enda leiðrétti hann það sjálfur með því að fara yfir það aftur sem hann sagði um vald sveitarstjórna sem hann vill að haldi áfram að hafa þau réttindi sem þær hafa haft til þess að ráðskast með eigur manna og taka jarðir og þess vegna koma þeim í hendurnar á þeim sem þeim líkar. Þetta hefur oft valdið miklum vanda, bæði sveitarstjórna og þeirra aðila sem átt hafa hlut að málum.

Ég tel að allar sveitarstjórnir eigi að bera hag íbúa sinna fyrir brjósti. En það telst ekki þar með í að ég telji að sveitarstjórnarmenn eigi að hafa ráð manna í hendi sér, þ.e. hvernig þeir fara með eigur sínar eins og verið hefur fram að þessu. En það vill hv. þm. Jón Bjarnason.