Jarðalög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 16:20:43 (5803)

2004-03-30 16:20:43# 130. lþ. 90.4 fundur 783. mál: #A jarðalög# (heildarlög) frv., AKG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[16:20]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að velta aðeins fyrir mér skilgreiningum í þessu frv. Meðal þess sem hér er skilgreint eru orðin jörð og lögbýli. Ég fór að velta fyrir mér hver væri munurinn á jörð og lögbýli. Hvort er víðtækara jörð eða lögbýli og hvað er skylt og hvað er óskylt með þessu tvennu? Í skilgreiningu um lögbýli stendur, með leyfi forseta:

,,Lögbýli merkir í lögum þessum sérhverja jörð sem hefur þann húsakost og það landrými eða búrekstraraðstöðu að unnt sé að stunda þar búrekstur eða aðra atvinnustarfsemi og var skráð í jarðaskrá landbúnaðarráðuneytisins 1. desember 2003.``

Þarna stendur sem sagt að lögbýli sé jörð. Þar með er jörð víðtækara en lögbýli.

Síðan er skilgreiningin á jörð svona, með leyfi forseta:

,,Jörð merkir í lögum þessum land með ákveðnum landamerkjum eða með ákveðnum tún- og engjamerkjum ef um er að ræða jörð eða hjáleigu sem hefur sameiginlegt beitiland með annarri jörð eða jörðum.``

Seinni helmingur þessarar málsgreinar vekur upp spurningar, þ.e. ,,... ef um er að ræða jörð eða hjáleigu sem hefur sameiginlegt beitiland með annarri jörð eða jörðum``. Verður þá lögbýli að hafa sameiginlegt beitiland með öðrum? Samkvæmt því sem hérna er skráð hlýtur það að vera. Það tel ég nú að sé alls ekki reyndin í dag, virðulegur forseti.

Í þessum skilgreiningum er hjáleiga ekki skilgreind. Ég tel að þörf sé á því ekkert síður en að þörf þykir á að skilgreina t.d. orðið ríkisjarðir. Ég held að ríkisjörð sé algengari í munni landans og betur skilin en orðið hjáleiga sem ég held að sé núna svona helst að finna í gömlum skáldsögum.

Í 7. gr. frv. er fjallað um sumarbústaðahverfi. Samkvæmt skilgreiningu á landbúnaði, og almennum skilningi einnig, telst ferðaþjónusta til landbúnaðar, ferðaþjónusta í sveitum. En í 7. gr. stendur, með leyfi forseta:

,,Óheimilt er að byggja sumarbústaðahverfi á landi sem ekki hefur verið leyst úr landbúnaðarnotum. Það telst vera sumarbústaðahverfi þegar fjórir eða fleiri sumarbústaðir eru samliggjandi eða á sama landi.``

Í 8. gr. stendur síðan að leita skuli leyfis landbúnaðarráðherra til að leysa land úr landbúnaðarnotum áður skipulagsáætlun hlýtur endanlega afgreiðslu. Samkvæmt þessum tveim greinum sýnist mér að ferðaþjónustubændur geti ekki bætt aðstöðu til þjónustu við gesti sína með því að byggja sumarhús nema leysa viðkomandi land úr landbúnaðarnotum. Það finnst mér aftur á móti vera í algjörri andstöðu við skilgreininguna á ferðaþjónustu í sveitum sem er hluti af landbúnaðarnotum, ef ég hef skilið það rétt.

Ef ég fer svo í 9. gr. þá þykir mér mjög strangt ákvæði þar sem ég spyr hvort ekki sé hægt að haga eitthvað mildara? Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Ef landnotkun er ekki í samræmi við ákvæði þessara laga ... getur landbúnaðarráðherra ákveðið að taka viðkomandi land eignarnámi að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands, Skipulagsstofnunar og sveitarstjórnar.``

Ég bara tek sem dæmi að ef leiguliði fer ekki vel með land eða fer ekki með land í samræmi við þetta lagafrumvarp þá er landeigandi kominn í þá stöðu að landbúnaðarráðherra getur tekið landið eignarnámi. Ég held að það hljóti að vera hægt að beita þar öðrum viðurlögum, herra forseti, alla vega til að byrja með, til að vita hvort ekki sé hægt að ná fram betri niðurstöðu með því.

Með 10. gr. um landbúnaðarnefndir sveitarfélaga sýnist mér að verið sé að leggja sveitarfélögum á herðar mjög viðamikið verkefni með skipan þessara nefnda sem þau eiga að standa straum af. Ég tek hér dæmi, með leyfi forseta:

,,Landbúnaðarnefndir sveitarfélaga skulu í umboði sveitarstjórnar vera ráðgefandi um landnotkun, hafa eftirlit með að meðferð og nýting lands, annarra fasteigna og fasteignaréttinda sé í samræmi við ákvæði þessara laga ... stuðla að góðri umgengni um land og mannvirki.``

Þarna er mjög viðamikið verkefni á ferðinni ef það á að vinnast vel og mér finnst óeðlilegt að leggja sveitarfélögunum þessa skyldu á herðar þannig að þau eigi að sjá um þetta alveg á sinn kostnað.

Mér finnst síðan að taka þurfi til endurskoðunar 16. gr. um jarðaskrá og 31. gr. um lögbýlaskrá með tilliti til skýrari skilgreininga á þýðingu orðanna jörð annars vegar og lögbýli hins vegar.

Svo vil ég benda á að í 30. gr. þar sem talað er um félagsbú, stendur með leyfi forseta:

,,Hjón ein sér eða með ófjárráða barni eða börnum geta þó ekki stofnað til félagsbús.``

Það er ekki nema eðlilegt. Svo stendur, með leyfi forseta:

,,Sama gildir um fólk í óvígðri sambúð ef það á sameiginlegt lögheimili og á barn saman eða á von á barni saman eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár.``

Nú kann svo að vera að annar aðilinn í þessari óvígðu sambúð eigi barn en hinn aðilinn ekki. Þá er samkvæmt þessari lagagrein heimilt að stofna félagsbú með þessu barni og sambúðarfólkinu. Mér sýnist vera gerður greinarmunur á hvort fólk er í vígðri sambúð eða óvígðri.

Í VII. kafla, 43. gr. er fjallað um ríkisjarðir, um mat á söluverði ríkisjarða og að það mat skuli taka til jarða, hlunninda, mannvirkja, ræktunar og greiðslumarks. Hins vegar kemur ekki einn þáttur inn í sem ég tel að skipti mjög miklu máli fyrir verðmæti jarðar, þ.e. staðsetning hennar. Við getum nefnt sem dæmi jörð sem er staðsett nálægt þéttbýli og gæti hentað til uppbyggingar ferðaþjónustu svo eitthvað sé nefnt og svo aftur á móti sambærilega jörð að öðru leyti en því að hún er bara staðsett einhvers staðar víðs fjarri en hentar að öðru leyti ágætlega til landbúnaðar, er með hlunnindi og allt hvað nöfnum tjáir að nefna. En þarna kemur staðsetningin ekki inn í og það finnst mér galli á þessu frv. sem þarf að taka af.

Eflaust þarf að skoða fjölmörg atriði betur og það verður auðvitað gert í landbn. Ég vil ítreka mótmæli mín frá því áðan í umræðum um frv. til ábúðarlaga. Ég gagnrýni hversu skamman tíma við þingmenn höfum haft til að fara yfir þessi frv. áður en þau komu til 1. umr. á Alþingi. Ég tel að ekkert hefði átt að vera því til fyrirstöðu að við fengjum betri tíma, samanber það að bæði þessi lagafrv. voru kynnt á búnaðarþingi fyrir nokkrum vikum.