Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 16:33:31 (5804)

2004-03-30 16:33:31# 130. lþ. 90.5 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[16:33]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

Breytingar þær sem hér eru lagðar til eiga rætur að rekja til þess að á árinu 2002 samþykkti Alþingi breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sem felur í sér að frá og með 1. september 2004 verði lagt sérstakt veiðigjald á eigendur skipa fyrir úthlutaðar veiðiheimildir eða landaðan afla þegar ekki er um úthlutun að ræða. Jafnframt var þess getið í greinargerð með frumvarpinu að þegar til greiðslu veiðigjalds kæmi væri við það miðað að niður féllu gjöld sem útgerðin greiddi og voru áætluð samkvæmt fjárlögum ársins 2002 um 850 millj. kr., þ.e. veiðieftirlitsgjald, 226,5 millj. kr., og þróunarsjóðsgjald, 621 millj. kr.

Með frumvarpi þessu er lagt til að gjöld sem eigendur skipa hafa greitt í Þróunarsjóð sjávarútvegsins skv. 4. og 6. gr. laganna verði felld niður frá 1. september nk. Samkvæmt áætluðum efnahags- og rekstursreikningi Þróunarsjóðs fyrir árið 2003 var hrein eign sjóðsins um 318 millj. kr. í árslok 2003 og var það í fyrsta skipti frá sjóðsstofnun sem sjóðurinn sýnir jákvæðan höfuðstól. Gangi áætlanir Þróunarsjóðs fyrir árin 2003--2009 eftir má gera ráð fyrir að hrein eign sjóðsins verði um 370 millj. kr. í árslok 2009 er starfstíma hans lýkur samkvæmt lögunum.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til hv. sjútvn.