Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 17:35:25 (5810)

2004-03-30 17:35:25# 130. lþ. 90.5 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[17:35]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Hæstv. forseti. Mér þykir miður að hv. þm. Sigurjón Þórðarson hafi eitthvað misskilið bendingar og talið að ég ætlaði ekki að koma og svara ræðumönnum eða taka þátt í umræðunni.

Það er alveg greinilegt að sumir hv. þm. hafa ekki enn gert sér grein fyrir því að það þarf að stjórna fiskveiðum og það er beinlínis krafa umheimsins að það sé gert. Við erum með takmarkaða auðlind í höndunum sem við höfum rétt til þess að nýta en við þurfum að gera það vel og geta skilað henni í hendur afkomenda okkar eins góðri og hún var þegar við tókum við henni og hugsanlega betri. Við höfum gert það með því að byggja upp markaðskerfi sem er jafnframt byggt á ráðgjöf vísindamanna um veiðina og það hefur gengið vel.

Nokkuð hefur verið rætt um færeyska kerfið. Kerfið þar er í stórum dráttum mjög svipað því íslenska að það byggir á takmörkuðum aðgangi miðað við reynslu. Það byggir á grundvallaratriðum markaðarins að hluta, þó ekki eins mikið og kerfið hjá okkur. Einingarnar þar eru sóknardagar en ekki kvóti, en meginmunurinn felst ekki í því heldur í veiðarfærastýringunni, mun stærri hluti aflans í kringum Færeyjar er veiddur á línu og handfæri en hjá okkur. Miklu minna hlutfall af aflanum er veitt í net eins og við gerum hér en við fáum reyndar verðmætasta afla okkar á þann hátt á vertíðinni og seljum hann á verðmætasta fiskmarkað í heimi sem er saltfiskmarkaðurinn í Barcelona í Katalóníu.

Spurt hefur verið um úttekt á færeyska fiskveiðistjórnarkerfinu. Sú úttekt felst í vinnu nefndar sem er að fjalla um líffræðilega fiskveiðistjórn. Öll grundvallaratriði sem þar er um að ræða er verið að fjalla um í þeirri nefnd. Ég á von á að hún skili mjög fljótlega af sér áfangaáliti en ég held að of snemmt sé að gera því skóna að einhver endanleg niðurstaða verði í þeim álitaefnum sem þeirri nefnd var falið að fjalla um.

Hins vegar hafa fiskifræðingar á Hafrannsóknastofnun fjallað opinberlega um ýmsar athuganir og samanburð sem gerður hefur verið á fiskveiðum við Færeyjar og fiskveiðum hér við land í gegnum tíðina yfir langt tímabil. Ein meginniðurstaðan úr því er sú að á um 30 til 40 ára löngu tímabili, ég man ekki alveg nákvæmlega hver viðmiðunarárin eru, hefur veiðin við Færeyjar einfaldlega verið minni en veiðin við Ísland, að við höfum nýtt okkar stofn meira en þeir hafa nýtt hann.

Annað meginatriði er að frá því að hægt er að tala um að hlýnun sjávar hafi hafist á ný eftir hið svokallaða kuldaskeið hefur nýliðun aukist hraðar í kringum Færeyjar en hér hjá okkur, þó að hún hafi vissulega aukist á báðum stöðum. Færeyingar hafa fengið inn nokkra mjög góða árganga meðan hrygningin og nýliðunin hjá okkur hefur einungis náð því að vera meðalnýliðun en hún var hins vegar komin langt niður fyrir það.

Athyglisvert er að hv. þingmenn skuli gagnrýna íslenska kvótakerfið á sama tíma og bresk stjórnvöld, undir forustu Verkamannaflokksins og Tonys Blairs, eru að leggja fram tillögur um að taka upp kerfi sem samkvæmt fréttum í breskum og íslenskum fjölmiðlum er byggt á þeim meginatriðum sem íslenska kerfið byggir á, sömu meginatriðum og nýsjálenska kerfið byggir á og að einhverju leyti á atriðum sem Hollendingar hafa notað í fiskveiðistjórn sinni.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson fjallaði um greinaskrif nokkurra þingmanna í ræðu sinni. Ég kann ekki þessar greinar eins vel utan að og hv. þm. þannig að ég treysti mér til þess að fara beinlínis í umræður um einstaka atriði í þeim greinum, þó að auðvitað sé það athyglisvert og væri jafnvel ástæða til að fjalla um fleiri greinar sem birtust á sama vettvangi en þær sem hv. þm. vitnaði í. En hann vitnaði hins vegar líka í frétt Morgunblaðsins um þær tillögur sem ríkisstjórn Tonys Blairs í Bretlandi, verkamannaflokksríkisstjórnin, leggur til og í umsögn mína um þær tillögur í Morgunblaðinu í vikunni. Það er rétt hjá hv. þm. að ég er ekki mjög bjartsýnn á það að Verkamannaflokknum takist að koma þessum breytingum á, ég á frekar von á því að þeim verði tekið illa af breska sjávarútveginum. Ástæðan fyrir því að ég met það svo er hin sameiginlega fiskveiðistefna Evrópusambandsins. Ef framseljanlegir aflakvótar yrðu teknir upp og aðlagaðir að grundvallaratriðum sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar gætu þeir kvótar gengið kaupum og sölum á milli landa eða milli útgerða í hinum aðskiljanlegu löndum Evrópusambandsins. Við það held ég að verði mikil andstaða í Bretlandi.

Ég gat ekki skilið hv. þm. Jóhann Ársælsson öðruvísi en svo en að hann hefði skilning á þessu og ég verð að segja að ég hef vissulega skilning á þessu sjónarmiði líka. Það má segja að sú gagnrýni sem ég hef haft uppi á hina sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, og sú gagnrýni sem ég hef haft uppi á stefnu Samf. í Evrópumálunum að vilja ganga inn í Evrópusambandið og selja sig undir þessa stefnu, sé að hún gæti haft sömu afleiðingar hér og upptaka kvótakerfis sem aðlagað væri að sameiginlegu fiskveiðistefnunni gæti haft í Bretlandi og hv. þm. Jóhann Ársælsson áttaði sig á. Þannig held ég að við skiljum þessa stöðu, tillögur ríkisstjórnar Verkamannaflokksins og hina sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópusambandsins og stöðu Bretlands gagnvart henni, á sama hátt. Og hugsanlega er styttra á milli okkar í afstöðu okkar varðandi aðild að Evrópusambandinu en mér sýnist a.m.k. vera milli mín og helstu forustumanna Samf. í þessu máli, og vitna ég þá til ummæla formanns Samf. í fjölmiðlum á undanförnum mánuðum og missirum.

Hæstv. forseti. Hvað varðar málið sem hér er til umræðu, veiðigjaldið sjálft, kemur fram í fjárlagafrv. að þar er áætlað að veiðigjaldið verði u.þ.b. 900 millj. kr. á þessu fjárlagaári og er þá miðað við afkomutölur frá 1. maí 2002 til 30. apríl 2003 og útreikninga eins og hv. þm. Jón Gunnarsson fór svo skilmerkilega með áðan. Ég hef ekki látið gera sérstaka útreikninga enn sem komið er á því hvernig þetta muni raunverulega verða miðað við tímabilið frá 1. maí 2003 til 30. apríl 2004, það er það skammt í að hægt sé að gera þá útreikninga endanlega að ég held að það hafi engan sérstakan tilgang en auðvitað hafa orðið breytingar á afkomunni á þessu tímabili. Það er ekki endilega víst að verðbreytingar á mörkuðum og þá sérstaklega erlendum mörkuðum hafi svo mikið að segja í þessu en þær hafa heldur ekki verið svo gríðarlega miklar á þessu tímabili.

[17:45]

Hins vegar gætu gengisbreytingarnar haft þar meiri áhrif enda var mjög skilmerkilega gerð grein fyrir því þegar ég mælti fyrir frv. um veiðigjaldið á sínum tíma að gengi íslensku krónunnar hefði gríðarlega mikið að segja um afkomu greinarinnar. Það má auðvitað öllum vera augljóst. Þar af leiðandi hefur það líka gríðarlega mikið að segja um afkomutengt veiðigjald. Hátt gengi krónunnar hefur óhagstæð áhrif á upphæð veiðigjaldsins, séð frá sjónarhóli ríkissjóðs, en að hinu leytinu til þá hagstæð áhrif séð frá sjónarhóli atvinnugreinarinnar. Það er auðvitað í samræmi við það að gjaldið eigi að tengjast afkomunni, að það sé þá lægra þegar afkoman er slök en þegar afkoman er góð. Hins vegar hafa engin grundvallaratriði varðandi forsendur í þessu máli breyst frá því sem var vorið 2002 og það að gjaldið verði tekið upp í áföngum, eins og skýrt kom hér fram í umræðunni. Ef menn eru að miða við áhrifin til lengri tíma væri auðvitað rétt að reikna það út frá 9,5%. Ef við hins vegar horfum á þetta út frá afkomu ríkissjóðs, sem náttúrlega er gagnlegt og áhugavert líka, og miðum við þær tölur sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. og síðan við það sem um er að ræða hér að mundi falla niður, miðað við árið 2002, væri um 670 millj. kr. viðbótartekjur í ríkissjóð að ræða þar sem höfuðstóll Þróunarsjóðsins er jákvæður.

Ég held að ég hafi náð að fara yfir flestar af þeim spurningum sem hér voru bornar fram. Ég geri hins vegar ráð fyrir því að ef sjútvn. óskar eftir frekari útreikningum á þessu muni sjútvrn. að sjálfsögðu leggja sig fram um að fara að þeim óskum til að gefa mönnum sem gleggsta mynd ef þeir hafa ekki áttað sig á því hver staðan í þessu máli er í dag og hvernig það muni líta út eftir 1. september þegar veiðigjaldið mun taka gildi.