Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 17:51:49 (5813)

2004-03-30 17:51:49# 130. lþ. 90.5 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[17:51]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það verður að vera vandamál hæstv. sjútvrh. að hann skilji ekki hvað við erum að fara þegar við tölum um stjórn fiskveiða í Frjálsl. Ég tel að við höfum talað skýrt. Við höfum gert tillögur að nýju kerfi hér við Ísland. Að sjálfsögðu er það kerfi lagað að íslenskum aðstæðum og við höfum verið mjög hófsamir í því. Við höfum t.d. sagt að frystitogararnir gætu verið áfram í kvótakerfi, við höfum sagt að uppsjávarflotinn gæti verið áfram í kvótakerfi. Við höfum verið mjög hófsamir. Að sjálfsögðu höfum við haft þetta færeyska kerfi til fyrirmyndar en við höfum reynt að laga það að íslenskum aðstæðum.

Hæstv. sjútvrh. segir allt í einu núna að veiðiálag við Færeyjar sé miklu minna en hér við Ísland. Það er þvert á það sem aðrir hafa sagt, m.a. fiskifræðingar Alþjóðahafrannsóknaráðsins til margra ára. Forsvarsmenn LÍÚ hafa sagt til margra ára að það væri gegndarlaus ofveiði við Færeyjar og að Færeyingar væru mjög óábyrgir í fiskveiðum sínum. Fyrst veiðiálag við Færeyjar er miklu minna allt í einu núna en hér við Ísland vil ég fá að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé þá ekki bara staðfesting á því að okkur hafi gersamlega mistekist fiskveiðistjórn okkar undanfarin 20 ár.